Í tölvupósti Sigríðar Logadóttur, aðallögfræðings Seðlabanka Íslands, til ritara nefndarsviðs Alþingis í vikunni, og Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, gerði að umtalsefni, er hvergi tekið þannig til orða að minnisblað um Icesave sé persónulegt álit tveggja lögmanna.

Samkvæmt upplýsingum Seðlabankans var tölvupósturinn sendur nefndarsviðinu í kjölfar þess að innihald minnisblaðsins lak út til fjölmiðla. Í honum væri verið að árétta að um minnisblað væri að ræða og að verið væri að klára endanlega umsögn Seðlabankans til fjárlaganefndar þingsins.

Tölvupósturinn er svohljóðandi: „Við lögfræðingar SÍ viljum undirstrika að minnisblaðið til utanríkismálanefndar er samantekt á því sem kom fram á fundinum þar sem lögfræðingar mættu sem gestir og ber ekki að líta á umsögn Seðlabankans sem slíka. Við viljum gjarnan að þetta kom fram hjá nefndinni. Verið er að klára vinnslu á umsögn Seðlabankans til fjárlaganefndar."

Í minnisblaðinu, sem er merkt Seðlabankanum og unnið af þeim Sigríði og Sigurði Thoroddsen lögfræðingum bankans eru Icesave-samningarnir gagnrýndir mjög. Lokaumsögn bankans um Icesave var efnislega hin sama.

Árni Þór sagði í samtali við Ríkisútvarpið eftir að hann hafði fengið tölvupóstinn í hendur að í honum hefði því verið  lýst yfir að umsögnin væri persónulegt álit lögfræðinganna. Hann kvaðst síðan velta því fyrir sér hvort lögfræðingar bankans væru þarna á einhverju einkatrippi.