Fjárfestingafélagið Arev, sem er undir stjórn Jóns Schevings Thorsteinssonar, er í lykilstöðu til þess að eignast verslunarfyrirtækið Mountain Warehouse sem sérhæfir sig í útivistarvörum á afsláttarkjörum. Að því er kemur fram í frétt breska dagblaðsins The Daily Telegraph er Arev við það að loka samninum um kaup á Mountain Warehouse sem rekur 33 verslanir vítt og breitt um Bretland.

Kaupverð er áætlað vera 17 milljónir punda eða ríflega tveir milljarðar króna.

Í frétt Telegraph kemur fram að líklegt sé að gengið verði frá samningnum í þessari viku en aðaleigandi Mountain Warehouse í dag er NBGI Private Equity, fjárfestingaarmur Þjóðarbankans í Grikklandi.

Kaupin munu einnig hafa í för með sér umtalsverðar greiðslur til stofnanda og stjórnanda Mountain Warehouse, Mark Neale.

Arev á í dag talsverðar fjárfestingar í Bretlandi og má þar meðal annars nefna Ghost og Jones the Bootmaker.

NBGI mun hafa sett Mountain Warehouse í sölumeðferð í janúar síðastliðnum að því er segir í frétt Telegraph. Þar kemur einnig fram að talið er að íþróttavörumógúlinn Mike Ashley, sem á Sports Direct, hafi einnig haft áhuga á verslunum Mountain Warehouse til að sameina það við Hargreaves Sports keðjuna.