Fjárfestingasjóðurinn Arev N1 hefur eignast tískuvöruverslunina Next í Kringlunni að fullu, en verslunin var fyrst opnuð hér á landi árið 2003 og var áður í eigu hjónanna Ragnhildar Önnu Jónsdóttur og Sverris Bergs Steinarssonar.

Um þrjátíu manns starfa hjá versluninni hér á landi, en hún er á tveimur hæðum í ríflega 1400 fm verslunarými á 2. og 3. hæð Kringlunnar.  Nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn yfir Next og er það Haraldur Bergsson sem einnig stýrir verslun Sævars Karls í Bankastræti 7. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu um eigendaskiptin.

Arev verðbréf sinna eignastýringu sjóðsins Arev N1. Önnur fyrirtæki sem Arev N1 á hlut í eru m.a. Emmessís, Áltak, Sævar Karl, Kraum, Sjá og Agóra.