Arev N1 fjárfestingasjóður hf., hefur keypt rúmlega helmingshlut í rekstrarfélagi Next í Kringlunni, Dagsól ehf.

Meðeigendur Arev N1 í félaginu eru Ragnhildur Anna Jónsdóttir og Sverrir Berg Steinarsson, en Ragnhildur Anna hefur verið framkvæmdastjóri í verslun Next á Íslandi frá upphafi rekstrar hérlendis að því er segir í tilkynningu.

Ragnhildur Anna verður framkvæmdastjóri hins nýja félags en Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, fjárfestingarstjóri Arev N1, verður stjórnarformaður félagsins.

Seljendur í viðskiptunum er þrotabú Nordex ehf. og Landsbanki Íslands sem selur birgðir. Aðrir viðsemjendur hins nýja félags er leigusalinn Landic fasteignafélag og Next plc, sem hefur aðsetur í Leicester.

,,Það er ánægjulegt að rekstur verslunarinnar geti hafist að nýju enda hefur þjónusta hennar mælst vel fyrir hér á landi. Þrátt fyrir erfitt rekstrarástand fer nú í hönd einn mikilvægasti tími ársins í rekstri smásölufyrirtækja og við gleðjumst yfir því að geta átt þátt í því að hjólin haldi áfram að snúast," segir Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir í tilkynningu.

Að sögn Ragnhildar Önnu Jónsdóttur munu allir ráðningarsamningar við starfsmenn verða yfirteknir, en um fjörutíu manns starfa hjá félaginu. Fyrirhugað er að opna verslunina í dag, laugardag, á hefðbundnum tíma.

Arev verðbréf sinna eignastýringu sjóðsins Arev N1, en hann er í eigu eignarhaldsfélagsins Arev og Sparisjóðabankans. Sjóðurinn fjárfestir í óskráðum vaxtarfyrirtækjum, aðallega á sviði heildsölu, smásölu og þjónustu.

Áhersla er lögð á að sjóðurinn sé framsækinn og mótandi fjárfestir sem tekur virkan þátt í rekstri og uppbyggingu fyrirtækja sinna segir í tilkynningu.

Önnur fyrirtæki sem Arev N1 á hlut í eru Emmessís, Áltak, Yggdrasill, Sævar Karl, Kraum, Sjá og Agóra.