*

laugardagur, 12. júní 2021
Innlent 8. maí 2018 18:38

Arev sektað fyrir gróf brot

Fjármálaeftirlitið hefur sektað Arev um 5,7 milljónir króna fyrir að hafa engan regluvörð við störf hjá fyrirtækinu í tæpt ár.

Ritstjórn
Jón Scheving Thorsteinsson er framkvæmdastjóri Arev.

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur lagt 5,7 milljón króna stjórnvaldasekt á verðbréfafyrirtækið Arev fyrir að hafa engan regluvörð við störf frá júlí 2016 til júní 2017. Arev óskaði eftir að ljúka málinu með sátt við sem FME féllst á.

Málsaðilar rituðu undir samkomulag um sátt hinn 12. desember 2017 sem fólst meðal annars í að Arev myndi greiða stjórnvaldssekt. Sú sekt var hins vegar aldrei greitt og því féll samkomulagið úr gildi.

Staðgengill regluvarðar Arev hætti störfum 19. maí 2016 og regluvörður hætti störfum 26. júlí 2016. Hinn 26. ágúst 2016 var Fjármálaeftirlitinu tilkynnt að stjórn Arev hefði samþykkt erindisbréf fyrir nýjan regluvörð á stjórnarfundi sama dag.

Þann 9. maí 2017 var Fjármálaeftirlitinu gert viðvart um að sá einstaklingur sem tilkynnt var um að stjórn hefði samþykkt erindisbréf fyrir, hefði ekki tekið að sér starfið. Athugun Fjármálaeftirlitsins leiddi í ljós að félagið hafði ekki gengið frá ráðningu nýs regluvarðar eða staðgengils hans, eftir að þeir hættu störfum í maí og júlí 2016. Arev tilnefndi fyrst nýjan regluvörð og staðgengil hans 8. júní 2017. Þannig liðu rúmir 10 mánuðir frá því að fyrri regluvörður hætti störfum og rúmt ár frá því að fyrrum staðgengill regluvarðar hætti störfum og þar til Arev gekk frá ráðningu nýrra aðila í júní 2017.

Fjármálaeftirlitið telur að Arev hafi brotið gróflega gegn lögum um verðbréfaviðskipti með því að hafa ekki gengið frá ráðningu regluvarðar með óyggjandi hætti þegar fyrrum regluvörður félagsins hætti störfum 26. júlí 2016 fyrr en 8. júní 2017 og þar með vanrækt að koma á og viðhalda skilvirkri regluvörslu, vanrækt skyldu sína til að hafa eftirlit með og meta reglulega hæfi og skilvirkni innri eftirlitskerfa sinna og grípa til viðeigandi ráðstafana til að ráða bót á annmörkum.

FME leit þó til þess að um fyrsta brot Arev var að ræða.