Forseti framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins, José Manuel Barroso, segir að endurskoða þurfi samkeppnisumhverfi orkufyrirtækja í Evrópu og jafnvel þurfi að skipta þeim upp.

Barroso segir að nýjar lagasetningar séu nauðsynlegar til að tryggja nægt aðgengi að orkumörkuðum Evrópu og veita þjóðum vald til að brjóta upp markaðsráðandi fyrirtæki. En stjórnarandstaðan í Frakklandi lagði nýlega fram lagafrumvarp sem miðar að því að stöðva einkavæðingu Gaz de France, sem gæti þá sameinast Suez og orðið þar með stærsta fyrirtæki sinnar tegundar í Frakklandi.

Ástæður þess að Barroso telur að endurskoða þurfi samkeppnisumhverfi orkufyrirtækja í Evrópu eru sífellt hækkandi orkuverð innan sambandsins og aukin nauðsyn þess að flytja inn gastegundir frá Rússlandi og Alsír. Franska fyrirtækið EDF, belgíska fyrirtækið Electrabel og þýsku fyrirtækin Eon og RWE eru meðal þeirra orkufyrirtækja sem búa við markaðsráðandi stöðu og er búist við að þau muni mótmæla fyrirhuguðum aðgerðum Barroso.

Barroso segir að núverandi samkeppnislöggjöf Evrópusambandsins sé ófullnægjandi og nú þurfi að ákveða hvaða leið muni þjóna bæði neytendum og fyrirtækjunum best. Barroso segir að það sé í athugun að setja á eftirlitsstofnun orkufyrirtækja innan Evrópusambandsins, en Barroso telur að víða séu tengsl samkeppnisyfirvalda við orkufyrirtæki of mikil. Búist er við því að Barroso muni leggja fram nýja samkeppnislöggjöf í byrjun næsta árs.