Seðlabanki Íslands segir að verðbólguhorfur hafi dökknað verulega frá síðasta útgáfudegi Peningamála. Bankinn hækkaði stýrivexti um 75 punkta í 11,5% í dag.

Bankinn segir að dökkar horfur megi að töluverðu leyti rekja til þess að gengi krónunnar hefur lækkað umtalsvert undanfarnar vikur.

Neikvæðar greiningar erlendra banka og fjölmiðlaumfjöllun um íslenskt efnahagslíf og bankakerfið stuðluðu að snarpri veikingu krónunnar í síðustu viku, segja sérfræðingar.

"Framleiðsluspenna er því meiri og verðbólguhorfur eftir því óhagstæðari en Seðlabankinn hefur reiknað með til þessa, sérstaklega í ljósi þess hve gengisþróunin hefur verið verðbólgumarkmiðinu öndverð að undanförnu," segir Seðlabankinn.

"Að gefnum óbreyttum stýrivöxtum og gengi virðast nú hverfandi líkur á því að verðbólgumarkmiði Seðlabankans verði náð innan tveggja ára. Ef gert er ráð fyrir að stýrivextir fylgi spám greiningaraðila, sem jafnframt fela í sér að gengi krónunnar veikist nokkuð til viðbótar því sem komið er, eru horfurnar enn verri."

Seðlabankinn segir nauðsynlegt að herða aðhald peningastefnunnar uns hann sannfærist um að það sé orðið nægilegt til að beina verðbólgu og verðbólguvæntingum að markmiði bankans.

Bankinn segir að þótt aðhaldssöm peningastefna kunni að leiða til tímabundins samdráttar í þjóðarbúskapnum, telur hann að of slök peningastefna við ríkjandi skilyrði muni að lokum leiða til harkalegri aðlögunar en strangt aðhald nú.