Fulltrúar ríkisbankanna þriggja mættu á fund viðskiptanefndar Alþingis í morgun. Í upphafi fundar dreifðu fulltrúar Landsbankans bréfi um að þeir teldu sig vera bundna þagnarskyldu um málefni einstakra viðskiptamanna.

Að sögn Ágústs Ólafs Ágústssonar, formanns viðskiptanefndar, voru Landsbankamenn í framhaldi þess spurðir að því hvort þeir hefðu haft einhverja aðkomu – annað hvort með lánveitingum eða aðgerðum sem gætu haft neikvæð áhrif á samkeppni á fjölmiðlamarkaði. ,,Þeir töldu sig ekki geta tjáð sig um málefni einstakra viðskiptamanna en töldu sig ekki hafa gerst brotlega við samkeppnislög,” sagði Ágúst Ólafur.

Ágúst Ólafur sagði að það hefði reyndar þegar komið fram af hálfu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í gær, þar sem hann hefði upplýst að viðskiptabankarnir hefðu ekki lánað vegna kaupa í fjölmiðlafyrirtækinu 365.

,,Eftir stendur auðvitað stóra málið í mínum huga, hvort að ríkisbankarnir séu með beinum hætti að hafa neikvæð áhrif á þróun markaða. Það hlýtur að vera hlutverk samkeppniseftirlitsins að fara í það mál og skoða það gaumgæfilega. Í annan stað er ljóst að úr því að bankaleynd nær yfir svona upplýsingar þarf löggjafinn, ef hann ætlar að gera þetta mál upp með trúverðugum hætti í óháðri rannsókn, að endurskoða þau lögbundnu ákvæði sem ríkja um bankaleynd. Í mínum huga er tómt mál að tala um að gera málið upp og varpa ljósi á álitamál ef menn geta falið stór og smá mál í bankaleynd.”

- Þér finnst að það þurfi að endurskoða ákvæði um bankaleynd?

,,Í uppgjörinu – þessari óháðu rannsókn sem mér sýnist mikil samstaða um að fara í og ég vona að það frumvarp komi sem fyrst. Þar þarf auðvitað að taka á hvernig bankaleynd verður meðhöndluð.  Auðvitað þarf hún að vera sett til hliðar í vissum tilvikum. Það er ekki hægt að gera upp svona mál, sem lýtur að hátttsemi á fjármálamarkaði, ef bankaleyndin lokar öllum upplýsingum. Síðan þarf að treysta viðkomandi nefnd og þeim einstaklingum sem í hana veljast til þess að fara vel með það vald og gæta þarf auðvitað að réttindum einstaklinga. En mér finnst það augljóst að svona óháð nefnd þarf að hafa mjög víðtækar heimildir til upplýsingaöflunar – miklu víðtækari heimildir en er nú að finna í lögum.”

Á fundi viðskiptanefndar með fulltrúum bankann voru efnahagsreikningar bankanna einnig ræddir en Ágúst Ólafur sagðist hafa áhyggjur af því að þeir væru jafnvel of stórir og það þyrfti jafnvel að afskrifa meira en gert var ráð fyrir. Hann sagði að það stæði til að  endurskoða efnahagsreikninganna sem fyrst.