Baldur Pétursson aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu (EBRD) telur að gjaldeyriskreppan á Íslandi sé af þeirri stærðargráðu að við hana verður ekki ráðið  nema til komi aukin alþjóðleg aðstoð. ,,Tækin og aðferðir sem fyrir hendi eru á Íslandi, eru einfaldlega ekki nægjanlega öflug til að ráða við þessa slæmu stöðu," segir Baldur.

Baldur hélt erindi nýlega á fundi sem Útflutningsráð stóð fyrir og þar kom hann meðal annars inn á stöðu Íslands í ljósi þeirrar fyrirgreiðslu sem lönd Austur-Evrópu hafa fengið. ,,Þegar lönd s.s. í Austur Evrópu sem eru í mun minni vanda en Ísland - hafa fengið umtalsverða alþjóðlega aðstoð frá ýmsum alþjóðastofnunum ekki síst innan ESB - þarf engan að undra þó að Ísland þurfi einnig á auknu alþjóðlegu samstarfi að halda," sagði Baldur í erindi sínu.

Mesta gjaldeyriskreppa sem nokkurt land hefur orðið fyrir

,,Tjón vegna hruns krónunnar kemur síðan fram í mestu gjaldeyriskreppu sem nokkurt land hefur í raun orðið fyrir – og sem er gríðarlega mikilvægt að leiðrétta sem fyrst áður en skaði vegna þessa magnast enn frekar upp - og enn frekari stórkostlegri eignatilfærsur eiga sér stað," segir Baldur í erindi sínu. Baldur segir að til að komast út úr þessari gjaldeyriskreppu þurfi bæði innlendar aðgerðir – en ekki síður aukna alþjóðlega aðstoð – þar sem þau tæki sem þarf til að ráða við slíkan vanda – eru ekki til staðar á Íslandi – nema að takmörkuðu mæli. ,,Þau tæki sem til þarf til að komast út út þessari gjaldeyriskreppu á Íslandi með nægjanlegu öryggi og lágmarks áhættu - eru einungis innan ESB og Seðlabanka Evrópu, til að treysta bakland krónunnar og þar með stöðugleika hennar. Með slíkum aðgerðum og tækjum – væru komnar forsendur fyrir því að aflétta gjaldeyrishömlum í áföngum og gera EES-samninginn á sviði fjármálaþjónustu virkan á ný.  Þetta er jafnframt forsenda fyrir styrkingu krónunnar – sem aftur er forsenda fyrir þeirri endurreisn hagkerisins, fyrirtækja, heimila, sveitarfélaga og ríkis. Þetta gæti leitt til þess að gengi krónunar ætti að komast í langtímajafnvægi sem þýddi 30% styrkingu krónunnar. Slíkt myndi létta verulega (um 30%) greiðslubyrði vegna erlendra lána atvinnulífs, einstaklinga, sveitarfélaga og ríkis og forðaði því yfirvofandi miklum gjaldþrotum og miklum eignatilfærslum, samhliða því að draga verulega úr þörf á niðurskurði í fjárlögum ríkis og sveitarfélaga," segir Baldur.

Afar mikilvægt er að ná gjaldeyrisstöðugleika

,,Með því að komast út úr gjaldeyriskreppunni samhliða styrkingu krónunnar er forsenda fyrir endurreisn og um leið mikilvægasta leiðin til að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang og að ná niður vöxtum á Íslandi. Í þessu sambandi skal einnig bent á það að afar mikilvægt er að ná gjaldeyrisstöðugleika miðað við langtíma jafnvægisgengi (gengisvísitala 140) til að tryggja stöðugleika á því jafnvægisgengi sem ríkja á til frambúðar miðað við upptöku evru – sem og til að tryggja að eignauppbygging í sparnaði lífeyrissjóða og eigna almennings í íslenskum krónum - verði ekki gerð verðlítil í erlendum gjaldmiðli til langframa - eignasöfn sem er lífeyrir framtíðarinnar og hefur tekið áratugi að byggja upp.  Umsókn um aðild að Evrópusambandinu er því afar stórt skref í átt að aukinni alþjóðasamvinnu og um leið lausnum og forsendum fyrir endurreisn á Íslandi. Gangi þetta allt eftir er bjart framundan á Íslandi. Staðan er hinsvegar svo slæm að það má ekkert fara úrskeiðis og engar tafir mega verða á þessari leið," segir Baldur.