Það þarf ekki sérkunnáttu til að taka myndir í vegabréf. Það er niðurstaða Hæstaréttar í máli Ljósmyndarafélags Íslands á hendur ríkinu. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að útgáfa vegabréfa sé meðal verkefna sem stjórnvöldum eru falin með lögum og séu þannig hluti af stjórnsýslu ríkisins. Myndataka í vegabréf sé órjúfanlegur þáttur í útgáfuferlinu og að ekki séu gerðar faglegar kröfur þannig að jafnað verði við myndatöku í atvinnuskyni í skilningi iðnaðarlaga. Var íslenska ríkið því sýknað af kröfu Ljósmyndarafélagi Íslands.

Ljósmyndarafélagið krafðist þess aðallega að viðurkennt yrði að auk einstaklinga, sem taka myndir í eigin vegabréf og nemenda í ljósmyndun, væru ljósmyndurum með iðnréttindi einum heimilt að taka ljósmyndir í íslensk vegabréf. Ljósmyndarafélagið taldi að sú framkvæmd Íslenska ríkisins að heimila ófaglærðu starfsfólki á afgreiðslustöðvum vegabréfa að taka myndir í vegabréf bryti gegn iðnréttindum ljósmyndara sem vernduð væru í iðnaðarlögum.

Í niðurstöðu Hæstaréttar segir: "Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að sú myndatakan sé einföld og engin þörf á sérkunnáttu ljósmyndara. Gjaldtakan fyrir útgáfu vegabréfa fer eftir ákvæðum laga um aukatekjur ríkisjóðs nr. 88/1991 og er þar ekki greint á milli mismunandi þátta í verkferlinu. Verður að fallast á það með aðaláfrýjanda að myndatakan á staðnum sé órjúfandi þáttur í ferlinu og ekki gerðar faglegar kröfur þannig að jafnað verði við myndatöku í atvinnuskyni í skilningi iðnaðarlaga. Verður aðaláfrýjandi því sýknaður af fyrri kröfulið gagnáfrýjanda."

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.