Fyrirsjáanlegt er að endurreistu bankarnir þrír, Íslandsbanki, Landsbankinn og Arion banki, geti ekki uppfyllt kröfur sem Fjármálaeftirlitið (FME) setur um 16% eiginfjárhlutfall, fari svo að öll lán er teljast gengistryggð krónulán verði dæmd ólögmæt.

Því þarf að breyta eiginfjárskilyrðum og lækka þau.

Þetta segir Gunnar Andersen, forstjóri FME. Hann telur þó langt í að óvissu um þessi mál verði eytt þar sem líklega þurfi nokkra dóma til þess að skera úr um hvaða lán teljast ólögleg og hver lögleg, sem oft hafa verið nefnd erlend lán.

Þá á enn eftir að fá botn í það hvaða vextir skuli gilda en málflutningur fór fram 6. september sl. í Hæstarétti í máli þar sem Héraðsdómur dæmdi á þá leið að lægstu óverðtryggðu vextir Seðlabanka Íslands skyldu gilda þegar gengistrygging væri dæmd ólögmæt.

„Ég tel að það muni þurfa nokkra dóma til þess að skýra þessi mál. Þangað til verður viðmiðið um 16% eiginfjárhlutfall óbreytt. Lánasamningarnir eru ólíkir og það þarf að fá fram hvaða samningar teljast löglegir og hverjir ólöglegir," sagði Gunnar í samtali við Viðskiptablaðið.

Yfir 1.000 milljarðar

Dómurinn sem Hæstiréttur felldi 16. júní sl., þess efnis að gengistrygging bílaláns í krónum væri ólögleg, hefur haft mikil áhrif á starf stjórnvalda, bankanna, FME og Seðlabankans. Óvissa ríkir um hversu víðtæk áhrifin verða á lánasöfn bankanna.

Gunnar segir að heildarvirði lána sem teljast vera erlend lán, þ.e. annaðhvort gengisbundin lán í krónum eða lán í erlendri mynt, sé um 1.000 milljarðar króna. Þar af eru fyrirtækjalán um 800 milljarðar. Lán til einstaklinga eru því um 200 milljarðar. Af þessum 1.000 milljörðum eru um 250 milljarðar í lánum sem teljast til lána í erlendri mynt en ekki gengisbundinna lána, að því er Gunnar segir.

„Eins og komið hefur fram áður hjá okkur þá teljum við að versta mögulega sviðsmynd, þegar kemur að þessum lánum, geti gert það að verkum að endurfjármagna þurfi bankana um 300 milljarða króna svo þeir geti verið með viðunandi eiginfjárstöðu. En það er eins og áður segir ekki enn útséð með hvernig þessi mál fara."

Íslandsbanki fjallar um það í uppgjöri sínu fyrir fyrri helming þessa árs, sem birt var á þriðjudag, að í versta falli geti eiginfjárhlutfall orðið 12%. Eiginfjárhlutfallið er nú 21,5% og er hæst af öllum endurreistu bönkunum þremur. Arion banki og Landsbankinn hafa ekki birt uppgjör fyrir sama tímabil og því liggja ekki fyrir opinberar upplýsingar um hver verstu mögulegu áhrif verða af því ef gengistrygging lána verður dæmd ólögleg á öllum lánum er teljast gengistryggð.

Nánar í Viðskiptablaðinu.