Kolmunnaveiðin við Færeyjar er orðin arfaslök. Skipin eru gjarnan að melda 100-200 tonn á sólarhring og það hefur smádregið úr veiðinni að undanförnu. Nú er kolmunnaflotinn austur af Færeyjum nálægt miðlínunni á milli Færeyja og Hjaltlandseyja.

Frá þessu segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar en skip fyrirtækisins, Beitir NK, Börkur NK og Bjarni Ólafsson AK, eru þar öll og toga á sama svæði.

Það er lengi dregið við þessar aðstæður, eða í um 20 tíma. Síðan tekur 2-3 tíma að hífa, dæla og kasta á ný þannig að það er einungis tekið eitt hol á sólarhring.

Að sögn Sigurðar Valgeirs Jóhannessonar, stýrimanns á Beiti, hefur verið kaldaskítur og jafnvel bræla á miðunum síðustu daga.

Undanfarin ár hefur dregið úr kolmunnaveiðinni þegar líður á maímánuð rétt eins og nú er að gerast. Síldarvinnsluskipin eiga eftir að veiða um 30.000 tonn en um líkt leyti í fyrra áttu þau eftir að veiða um 20.000 tonn. Helsta ástæðan fyrir minni veiði í ár en í fyrra er óhagstætt veður á miðunum vestur af Írlandi í febrúar og mars sl.

Von er á Hákoni EA til Neskaupstaðar í fyrramálið með 1.700 tonn af kolmunna.