Eignarhlutur ríkissjóðs í bankakerfi landsins er ríflega fimm sinnum hærri í dag en fyrir 20 árum síðan. Þetta kemur í nýrri skýrslu Bankasýslu ríkisins um starfsemi stofnunarinnar sem gefin var út á dögunum. Í skýrslunni eru umsvif ríkisins á fjármálamarkaði í Evr­ ópu borin saman. Samanburð­ urinn sýnir hversu Ísland sker sig úr í þessum efnum en að sögn Bankasýslunnar sýnir hann „hversu gríðarlega há fjárbinding ríkissjóðs í eignarhlutum í viðskiptabönkum er í samanburði við önnur ríki Evrópu“.

Þannig kemur m.a. fram að hlutfall íslenska ríkisins í bókfærðu eigin fé við­ skiptabankanna sem hlutfall af landsframleiðslu hafi verið tæplega 19% í árslok 2016. Hlutfallið var 3,6% í árslok 1997 þegar ríkið átti Búnaðarbankann, FBA og Landsbankann. Til samanburðar var hluturinn á bilinu 1,9-5,4% á ríkjum á borð við Belgíu, Bretland, Grikkland, Holland og Írland á sama tíma

Spurður um innihald skýrslunnar segir Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja, að samtökin hafi í raun ekki mikla skoðun á því hver eigi bankana en flestir séu fylgjandi því að ríkið minnki umsvif sín á fjármálamarkaði. „Flestir okkar félagsmenn eru fylgjandi því að ríkið minnki sinn eignarhlut og við höfum verið fylgjandi þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið um að selja Íslandsbanka, hlutinn í Arion banka og minnka eignarhlutinn í Landbankanum í um 30%. Með þessu gæfist ríkinu enda færi á að losa peninga og þannig borga niður skuldir. Þá myndi það jafnframt draga úr áhættustarfsemi ríkisins,“ segir Yngvi. Hann segir stöðuna á markaðnum í dag í raun vera eina af mörgum arfleifðum frá hruninu. „Það er búið að leysa haftamálin og gera upp þrotabúin og það má segja að minnkun á eignarhlut ríkisins í bankakerfinu sé lokaverkefnið sem eftir stendur til að klára þetta hrun,“ bætir Yngvi við.

Fyrstu bankarnir til að greiða arð eftir hrun

Samkvæmt skýrslunni voru Íslenskir bankar á meðal þeirra fyrstu í Evrópu eftir bankakreppuna til að greiða arð til hluthafa sinna, bæði reglulegan og sérstakan. Á árinu 2016 greiddu bæði Íslandsbanki og Landsbankinn arð, en ekki Arion banki. Í tilfelli Íslandsbanka greiddi bankinn út reglulegan arð að fjárhæð 10 milljarðar króna, sem samþykktur var á aðalfundi bankans, og 27 milljarða króna í sérstakan arð, sem samþykktur var á hluthafafundi í desember.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.