Hafirðu einhverntíman verið þinglýstur eigandi fasteignar, óháð því hvernig það kom til, muntu ekki eiga rétt á helmingsafslætti á stimpilgjaldi við kaup á fyrstu fasteign. Frumvarpsdrög þessa efnis voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í gærkvöldi.

Í fyrra kvað yfirskattanefnd upp úrskurð þar sem úrskurður sýslumanns um að synja um afslátt var felldur úr gildi. Umræddur fasteignakaupandi var að kaupa sína fyrstu eign en hafði sem barn erft fasteign og verið þinglýstur eigandi hennar um stund. Taldi sýslumaður því að skilyrðið um fyrstu fasteign væri brostið. Yfirskattanefnd taldi ákvæðið þó ekki nægilega afdráttarlaust um þetta og felldi ákvörðunina úr gildi.

Sjá einnig: Fékk ekki afslátt vegna arftöku

Seinna meir komst nefndin að þeirri niðurstöðu að aðrir í sambærilegri stöðu, sem einnig hafði verið synjað af sýslumanni, ættu rétt á að fá afsláttinn greitt afturvirkt. Nú er stefnt að því að framvegis geti arftakar ekki notið afsláttarins. Þessi breyting er studd þeim rökum að það hefði skapað aukna vinnu fyrir sýslumann að rannsaka hvort einstaklingur hefði verið þinglýstur áður vegna arfs eða af öðrum ástæðum.

Frumvarpið er afdráttarlaust um að hafi einstaklingur einhverntíman verið þinglýstur eigandi fasteignar, hvort sem um hafi verið að ræða kaup, arftöku, gjafagerning eða eignayfirfærslu með hvers kyns hætti, muni viðkomandi ekki eiga rétt á afslætti á stimpilgjöldum fyrstu fasteignar.

Sjá einnig: Ráðuneytið vildi ekki leiðrétta

Frumvarpið felur einnig í sér að skilyrðið um 50% eignarhlutdeild í eigninni er fellt úr gildi. Þannig getur einstaklingur, sem eignast 20% í fyrstu fasteign, fengið helmingsafslátt á þeim hluta er hann varðar í fyrstu kaupum. Hins vegar er ekki hægt að nýta afganginn af afslættinum seinna meir.

Að endingu felur frumvarpið í sér að ef fasteignin er ekki fullbúin skuli matsverð eignar, sem myndar gjaldstofn stimpilgjaldsins, miðast við byggingarstig við afhendingu hennar.

Hægt er að senda inn umsagnir við frumvarpsdrögin í samráðsgáttinni til 20. janúar 2020 með því að smella hér .