Annegret Kramp-Karrenbauer, sem verið hefur leiðtogi kristilegra demókrata í Þýskalandi síðan hún vann kosningar innan flokksins árið 2018, hefur ákveðið að bjóða sig ekki fram sem kanslaraefni flokksins og þar með hætta formennsku í honum.

Þar með galopnast baráttan um hver mun leiða flokkinn, og þar með líklega landið eftir næstu þingkosningar sem eru áætlaðar haustið 2021. Merkel hefur ákveðið að leiða flokkinn ekki í næstu kosningum, en hún hefur verið kanslari Þýskalands frá 2005.

Helstu keppinautar um að taka við stöðunni eru taldir annars vegar íhaldsmennirnir Jens Spahn heilbrigðisráðherra og Frederich Merz, fyrrum þingflokksformaður sem hún sigraði með naumindum í seinni umferð leiðtogakjörsins, og hins vegar Armin Laschet forsætisráðherra þýska sambandslýðveldisins North Rhine-Westphalia.

Annegret hefur mikið til misst þann stuðning og fylgi sem hún hafði síðustu mánuði, en hún er nú varnarmálaráðherra í ríkisstjórn Þýskalands og fyrrum forsætisráðherra Saarlands.

Þannig hefur hún bæði fengið frjálslyndari arm flokksins á móti sér þegar hún gantaðist með kynlaus klósett á hátíð í suður Þýsklandi, sem og íhaldsamari arminn sem fór gegn óskum hennar og samdi við flokkinn Valkost fyrir Þýskaland (AfD) um að styðja lítt þekktan stjórnmálamann til að vera forsætisráðherra Thuringia í austur Þýskalandi.

CDU er sagt hafa færst inn á miðjuna undir stjórn Merkel, og Anegret var talin myndi halda því áfram, en á sama tíma hefur AfD vaxið fiskur um hrygg, en hann var fyrst stofnaður utan um andstöðu við evruna og efasemdir um frekari samþættingu ESB en hefur færst yfir í að vera harður andstæðingur opinnar innflytjendastefnu Merkel og græddi flokkurinn mjög á því þegar Merkel galopnaði landamæri landsins fyrir flóttamönnum.

Hefur FT eftir bæði stjórnmálamönnum og stjórnmálaskýrendum í Þýskalandi að það sé auðsætt að dregið hafi úr valdi hennar, bæði því ekki var hlustað á andstöðu hennar í Thuringen, sem og þegar Merkel sjálf steig inn í málið og sýndi þannig fram á hve veik staða hennar var.