Axel Kicillof, efnahagsráðherra Argentínu, þreytir nú síðustu tilraun til að ná samningum við kröfuhafa og forða þannig Argentínu frá greiðslufalli. Í frétt BBC segir að Kicillof hafi fundað með kröfuhöfunum í New York í gærkvöldi án árangurs, en samningar standi enn yfir.

Kröfuhafarnir fara fram á fulla greiðslu ríkisskuldabréfa, að upphæð 1,3 milljarða bandaríkjadala, sem Argentína gaf út í kjölfar efnahagsþrenginga. Bandarískur dómstóll hefur úrskurðað um að Argentína verði að borga skuldina fyrir miðnætti í kvöld eða semja. Argentína hefur ekki tök á að borga skuldina eins og hún stendur núna og ef ekki næst að semja fyrir kvöldið verður ríkið að lýsa yfir gjaldþroti.