Argentínski pesóinn féll um 11% í gær. Annað eins hefur ekki gerst síaðn árið 2002 þegar argentínska ríkið fór á hliðina. Erlendir fjármálasérfræðingar segja seðlabanka landsins hafa í vikunni gefist upp á að reyna að styðja við gjaldmiðil landsins. Hætt er við að verðbólga í Argentínu rjúki upp í 30% á þessu ári. Hún mælist nú 25%. Til samanburðar fór verðbólgan í 41% þegar landið varð gjaldþrota fyrir 12 árum.

Bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal segir stjórnvöld komin út í horn eftir óstjórn hjónanna Néstor Kirchner, fyrrverandi forseta Argentínu, og Cristinu Kirchner, sem tók við forsetaembættinu. Þau hafi nýtt auknar tekjur hins opinbera af hækkun á hrávöruverði til að auka útgjöld hins opinbera til muna en hlýtt engu sem borist hafi frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS). Nú er svo komið að Cristina Kirchner hafi innleitt ýmsar ráðstafanir í gjaldeyrismálum sem líta megi á sem gjaldeyrishöft. Þar á meðal eru hömlur á netverslun en stjórnvöld vilja setja skorður á netverslun landa á milli til að verja gjaldeyrisvaraforða seðlabankans.