Það er ekki bara á norðurhveli jarðar þar sem menn velta vöngum um efnahagsvandann á Íslandi.

Í dag birtist ítarleg úttekt í argentíska viðskiptablaðinu El Cronista Comercial um þann vanda sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi. Fyrirsögn greinarinnar er „Ísland nálægt hruni vegna synda Bandaríkjanna.”

Fullyrt er í greininni að án alls vafa sé landið að nálgast þá hættulegu stöðu sem Argentína var í undir lok tíunda áratugar nýliðinnar aldar, en í upphafi aldarinnar gekk hagkerfi landsins í gegnum djúpstæða fjármálakreppu.

Það sem kemur meðal annars fram er að fjármálakerfið eigi í miklum erfiðleikum að afla sér fjár á alþjóðamörkuðum vegna lánsfjárkreppunnar, mynt landsins hafi veikst 20% gagnvart evru frá því í byrjun árs. Bent er á að verðbólga sé sjö prósent á ársgrundvelli og að íslenski seðlabankinn hafi neyðst til að hækka stýrivexti upp í 15% til þess að styðja við krónuna og koma böndum á verðbólgu.

Þá bendir El Cronista Comercial sérstaklega á að á Íslandi sé aðeins 2 þúsund milljónir Bandaríkjadala í gjaldeyrisvaraforðanum „til þess að verja sig gegn árásum spákaupmanna” eins og það er orðað í blaðinu.

Þess má geta að Argentínumenn er alls engir viðvaningar þegar kemur að fjármálakreppum en síðast gekk hagkerfi landsins gegnum miklar hremmingar árið 2001.