*

föstudagur, 23. ágúst 2019
Erlent 14. ágúst 2019 17:37

Argentíski pesóinn fellur á ný

Hlutabréfaverð í landinu helmingast vegna væntinga um að perónistar nái völdum á ný. Macri svarar líka með popúlisma.

Ritstjórn
Maurico Macri er stofnandi hægriflokksins Lýðræðistillögurnar, og fyrsti forseti landsins sem ekki kemur frá flokkum rótækra eða perónista.

Argentíski pesóinn hélt áfram að lækka í virði á mörkuðum í dag í kjölfar þess að Mauricio Macri forseti tilkynnti um neyðaraðgerðir til að reyna að hífa upp vinsældir sínar fyrir komandi forsetakosningar. Með falli gjaldmiðilsins nemur hrunið sem varð á hlutabréfamörkuðum landsins um helmingi mælt í Bandaríkjadölum.

Segir Macri aðgerðirnar nú vera til að hjálpa almenningi glíma við afleiðingar ríflega 30% gengisfalls gjaldeyrisins daginn eftir forkosningarnar, en í gær féll gjaldmiðillinn um 10% til viðbótar eftir að hafa náð sér nokkuð á strik framan af degi, og fæst nú Bandaríkjadalurinn á tæplega 60 dali þegar þetta er skrifað.

Aðgerðir upp á 92 milljarða

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um á mánudaginn tapaði forsetinn í forkosningum sem haldnar voru samhliða prófkjörum allra flokka í landinu. Þó kosningin um forsetann sé í raun skoðanakönnun og hafi í sjálfu sér lítið gildi er hún talin sterk vísbending um að perónistar nái á ný völdum í kosningunum sjálfum í október.

Aðgerðirnar sem Macri boðar kosta um 740 milljónir dala, eða sem samsvarar nærri 92 milljörðum íslenskra króna eru í ætt við popúlísk loforð stjórnarherra í landinu síðustu öldina, þó hann sé fyrsti hægrisinnaði forsetinn frá árinu 1916 sem hefur verið lýðræðislega kosinn.

Þannig hyggst forsetinn hækka lágmarkslaunin, auka við lán til smárra og meðalstórra fyrirtækja, hækka stuðning til háskólanema, niðurgreiðslur til fátækra fjölskyldna með börn og hækka lágmark tekjuskattsins, ásamt því að frysta eldsneytisverð í 90 daga að því er FT greinir frá.

Því má segja að skuggi Juan og Evitu Perón hvíli enn á landinu en vinstriþjóðernisstefna þeirra og einangrunarhyggja er enn meginhugmyndafræði Réttlætisflokksins sem búist er við að taki við stjórnartaumunum eftir kosningarnar. Áhyggjur aðila á markaði eru þó ekki síst yfir því hvort sigur forsetaefnis perónista í Réttlætisflokknum setji 57 milljarða dala metbjörgunarpakka alþjóðagjaldeyrissjóðsins í hættu.

Markaðurinn treystir ekki loforðum perónista

Hefur loforð Alberto Fernández sem leiðir flokkinn um að hann muni greiða af skuldum ríkisins sem forseti ekki dugað til að draga úr þeim áhggjum. Segir FT það ekki síst vera vegna þess að varaforsetaefni hans, Christina Fernández de Kirchner, fyrrum forseti landsins hefur verið þekkt fyrir popúlískar aðgerðir sem hafi skilið landið eftir í miklum efnahagsþrengingum þegar kjörtímabili hennar lauk árið 2015.

Blaðið hefur eftir Anthony Kettle sjóðsstjóra hjá BlueBay Asset Management að stefnu perónistanna se mjög óljósa „en þeir eru klárlega með síður fjárfestavæna stefnu en framboð Macri“. Einnig er vitnað í Luiz Ribeiro aðalsjóðsstjóra suður amerískra hlutabréfa hjá DWS Group í Sao Paulo í Brasilíu sem sagði að þó eitthvað hafi argentísk bréf tekið við sér á ný muni hann standa á hliðarlínunni.

„Lykilbreytan er hvað Alberto Fernández mun segja um efnahagsstefnu sína og hvernig hann muni kljást við skuldirnar,“ segir hann og telur erfitt að búast við einhverju öðru en því sem Kirchner stóð fyrir á valdatíma hennar og eiginmanns hennar heitnum en hann var forseti á undan henni.„Líkurnar á að staðan verði verri í Argentínu er gríðarstór. Ég myndi taka peningana og setja þá einhver staðar annars staðar.“