Í hálffimm fréttum Kaupþings er greint frá því að heildararðgreiðslur þeirra fyrirtækja sem nú mynda Úrvalsvísitöluna dragast saman um rúman helming milli ára.

Hvorki FL Group né Exista greiða út arð en í fyrra greiddu þessi félög samanlagt út tæplega 26 milljarða króna í arð.

Aðeins tvö fyrirtæki greiða hærri arð nú en í fyrra, en þau eru Bakkavör og Kaupþing. Kaupþing greiddi 21% af hagnaði félagsins árið 2007 í arð nú samanborið við 12% af hagnaði félagsins 2006 í fyrra.

Í frétt Kaupþings um málið segir einnig að almennt virðist fyrirtæki tregari til að greiða arð í formi lauss fjár en ella í núverandi lausafjárkreppu. Þannig gafst hluthöfum Glitnis til dæmis kostur á að fá allt að helmingi arðs síns greiddan í formi hlutabréfa og arðgreiðsla Straums verður að öllu leyti greidd með hlutabréfum í félaginu.