Arðgreiðslur til einstaklinga námu 52 milljörðum króna í fyrra og höfðu vaxið úr 44 milljörðum króna árið á undan að því er kemur fram í vefriti fjármálaráðuneytisins. Þar kemur fram að á meðan arðgreiðslur voru að hækka á milli þessara ára voru fjjármagnstekjur að lækka.

Í upplýsingum Ríkisskattstjóra vegna álagningar tekjuskatts einstaklinga kemur fram hversu miklar fjármagnstekjur einstaklingar telja fram. Á þær er lagður sérstakur skattur, fjármagnstekjuskattur, og var hann 10% á allar tekjur árið 2008. Hann hefur nú tímabundið verið hækkaður í 15% á tekjur umfram 250.000 króna lágmark.

Fjármagnstekjur landsmanna höfðu vaxið mjög ört og náðu hámarki árið 2007 þegar framtaldar fjármagnstekjur námu 244 milljörðum króna. Árið eftir voru þær 194 milljarðar króna. Mikil breyting hefur orðið á samsetningu framtalinna. Árið 2007 töldu landsmenn fram 151 milljarða kr. söluhagnað en í fyrra var hann 27 milljarðar .kr. Þetta eru afleiðingar lækkandi hlutabréfaverðs og minni umsvifa í kaupum og sölu hlutabréfa segir í vefritinu.

Leigutekjur námu 5 milljörðum króna í fyrra og eru minnsti flokkur fjármagnstekna.