Stjórn TM leggur til við hluthafafund þann 3. mars næstkomandi að greiddur verði 2.100 milljóna króna arður til hluthafa, eða 1,94 krónur á hvern hlut, fyrir árið 2007 og munu því arðgreiðslur tvöfaldast á milli ára gangi tillagan eftir, að sögn greiningardeildar Kaupþings.

"Á undanförnum fimm árum hefur TM greitt um 6,8 milljarða króna í arð til hluthafa sinna. FL [ FL ] á yfir 99% hlutafjár í TM og tekur því langstærstan skerf til sín. TM skilaði 4.375 milljóna króna hagnaði á síðasta ári en þar af nam jákvæð tekjufærsla skatts um 3.887 milljónum króna," segir greiningardeildin.

FL Group fær einnig myndarlegan arð frá Glitni [ GLB ], segir greiningardeildin, eftir að hluthafar bankans samþykktu í síðustu viku tillögu um að greiða 5.506 milljónir króna í arð. "Eignarhlutur FL í Glitni stendur í tæpum 32% og nemur því arðgreiðslan um 1.760 milljónum króna. Heildararður FL af þessum tveimur kjarnaeignum gætu því numið 3.840 milljónum króna en reikna má að þessar tvær eignir gefi félaginu mestan arð á árinu. Til samanburðar voru tekjur félagsins vegna arðgreiðslna um 4,3 milljarðar í fyrra, þar af féllu til um 3.590 milljónir frá Glitni og Commerzbank," segir greiningardeildin.