Árið 2005 var metár í norskum sjávarútvegi, segir greiningardeild Íslandsbanka.

Útflutningsverðmæti sjávarafurða þeirra jókst um 13% frá árinu 2004 og var 314 milljarðar íslenskra króna.

Ein helsta ástæða fyrir góðu ári í fyrra var metframleiðsla hjá laxeldisfyrirtækjum auk þess sem afurðaverðið var hátt. Norsk laxeldisfyrirtæki framleiddu um 569 þúsund tonn í fyrra sem er met.

Helstu fiskistofnar Norðmanna eru í jafnvægi og hefur veiði úr þeim hefur verið stöðug á síðustu árum.

Fiskveiðistjórnunin í Noregi er enn flókin og ósveigjanleg í samanburði við íslenska stjórnkerfið þótt þróunin í uppsjávarveiðunum hafi breyst til batnaðar.

Norðmenn eru stærstu framleiðendur á laxi með um 45% af heimsframleiðslunni í fyrra. Af útflutningsverðmæti sjávarafurða var 47% vegna fiskeldis en 53% vegna fiskveiða og -vinnslu.

Afkoma í fiskveiðum hefur verið mjög mismunandi eftir útgerðarflokkum á síðustu árum.

Best hefur afkoman verið hjá uppsjávarskipum en þar hefur stjórnkerfið við veiðar verið mest sveigjanlegt, skipum hefur fækkað og kvótinn safnast á færri skip. Auk þess hafa aflabrögð verið góð og afurðaverð hátt.

Afkoma í öðrum útgerðarflokkum hefur verið lakari en þó hefur orðið hagræðing í togaraútgerð.

Blikur eru nú á lofti í fiskveiðistjórnuninni eftir að ný ríkisstjórn komst til valda í haust og er óljóst hvort haldið verði áfram með þær breytingar sem hafa átt sér stað á undanförnum misserum, segir greiningardeildin.

Sex sjávarútvegsfyrirtæki eru skráð í Kauphöllina í Osló eftir að Cermaq og Aker Seafoods voru skráð í fyrra.

Fjögur af þessum sex eru að stærstum hluta laxeldisfyrirtæki og hefur verð á hlutabréfum í þessum félögum hækkað á bilinu 76% - 144% á síðustu tólf mánuðum í kjölfar hækkunar á laxaverði og góðum rekstraraðstæðum.