Í ræðu sinni á aðalfundi Actavis sem fór fram í hádeginu sagði Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður félagsins, að árið 2007 yrði að öllum líkindum ár umbreytinga í lyfjaheiminum. Hann sagði að styrkleiki Actavis væri sveigjanleiki og gott auga fyrir tækifærum.

"Ég hef fulla trú á að félagið nýti þau tækifæri sem gefast og að okkur muni miða vel áfram að því marki okkar að Actavis verði í hópi þriggja stærstu samheitalyfjafyrirtækja í heiminum," sagði Björgólfur.

Hann greindi einnig frá því að félagið hefði óskað eftir heimild frá Kauphöll Íslands til að skrá hlutabréf sín í evrum. "Fyrir félag sem er með nær allar tekjur sínar í traustum erlendum myntum getur reynst óheppilegt að skrá hlutabréfin í litlum gjaldmiðli eins og íslensku krónunni sem er viðkvæmur fyrir utanaðkomandi áhrifum og sveiflast örar og í öðrum takti en félagið sjálft. Íslenska krónan endurspeglar því ekki með neinum hætti starfsumhverfi félagsins, enda eingöngu um 1% af tekjum félagsins í íslenskum krónum."