Fyrsti viðskiptadagurinn á nýju ári fór ekki vel af stað í Kauphöllinni en Úrvalsvísitalan lækkaði um 2,5% í dag. Þar af lækkuðu fjárfestingafélögin FL Group og Exista mest eða um ríflega 5 og 6%. Sömuleiðis hélt Spron áfram að lækka.

Í dag nam velta á gjaldeyrismarkaði 22,4 milljörðum króna. Gengisvísitalan endaði í 119,55 og hafði krónan styrkst um 1,09% frá opnun markaða.

Í Hálffimm fréttum Kaupþings er bent á að á undanförnum fjórum árum hefur vísitalan hækkað um 10-13% í janúar – um það leyti er uppgjörin eru farin að detta inn í hús og mikil bjartsýni hefur ríkt fyrir árið í heild. Í fyrra og árið 2005 var fyrsti mánuður ársins sá besti á árinu og það sama var uppi á tengingnum árið 2002. Janúar er því oft á tíðum besti mánuður ársins á innlendum hlutabréfamarkaði segir í Hálffimm fréttum.