„Hann hefur verið í ráðgjafarhlutverki um nokkurra ára skeið. Það verður engin breyting á því. Hann er ekki í fullu starfi,“ segir Ari Edwald, forstjóri 365 miðla um ráðningu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem yfirmann nýs sviðs þróunarverkefna hjá fyrirtækinu. Hann segir að með stofnun sviðsins hafi verið að búa til ramma utan um starf Jóns Ásgeirs og skýra verkaskiptinguna þar. Þrír til fjórir einstaklingar heyra undir svið Jóns Ásgeirs og eru þeir ekki fastir starfsmenn.

Eðli málsins samkvæmt vill Ari ekki tilgreina frá verkefnum sviðsins að öðru leyti en því að nokkur þeirra hafi komið fram að litlu leyti. „Fram að þessu hafa það verið hagræðingaverkefni fyrst og fremst sem hann hefur sinnt í sinni ráðgjöf,“ segir Ari.

Ari vísar því á bug að ráðning og störf Jóns Ásgeirs fyrir 365 miðla geti þótt umdeild þótt hann tengist beint eða óbeint mörgum dómsmálum sem tengjast efnahagshruninu. Hann segir:

„Þá væri ekki hægt að hafa tugi eða hundruð manna sem til athugunar eru í vinnu. Þeir gætu ekki unnið fyrir sér í einhver ár. Það myndi ekki ganga upp.“