Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, segir að ummæli Páls Magnússonar útvarpsstjóra í viðtali við Viðskiptablaðið 19. ágúst síðastliðinn, meðal annars um fyrirtækið sem hann stjórnar, lágkúruleg. Engum dylst að mati Ara að markmið Páls með þeim sé að dreifa athyglinni frá lélegri frammistöðu RÚV á dagskrársviðinu undir stjórn útvarpsstjóra.

Ari sendi Viðskiptablaðinu athugasemdir við viðtalið sem birtust í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins og í heild hér að neðan á vb.is.

Athugasemdir við atvinnuróg Páls Magnússonar

Páll Magnússon útvarpsstjóri fer mikinn í viðtali í síðasta Viðskiptablaði, fimmtudaginn 19. ágúst, og eys úr skálum reiði sinnar yfir 365 miðla og tengda aðila, tvo banka og þeirra starfsmenn og „spillta stjórnmálamenn.“

Engum dylst að markmið Páls með þeim ósannindavaðli sem hann ber á borð um framangreinda aðila er að dreifa athyglinni frá lélegri frammistöðu RÚV á dagskrársviðinu undir hans stjórn. Það væru lágkúruleg vinnubrögð hver sem ætti í hlut.

En það er alls ekki sæmandi að forsvarsmaður opinbers fyrirtækis sem er kostað að mestu af skattfé, standi fyrir lygaherferð á hendur einkaaðilum sem hann telur sig eiga í samkeppni við. Þar við bætist að Páll hefur mikla nálægð við fréttasvið RÚV og mikil áhrif eins og dæmin sanna. Það nýjasta er hvernig hann ræsti út fréttir og fréttatengda þætti til að berja á Stöð 2 Sport, í reiðikasti yfir að hafa gloprað frá sér sýningarréttinum að HM í handbolta.

Það virðist ljóst að þeir aðilar sem Páll Magnússon leggur fæð á, eins og 365 miðlar og þeir sem þeim tengjast, geti ekki vænst hlutlægrar meðferðar af hálfu RÚV á meðan hann er þar við stjórnvölinn.

Í stuttu máli þá er hvert einasta atriði er rangt sem PM heldur fram um 365 miðla og samskipti þess við aðra aðila. Hér skal tæpt á þeim stærstu.

  1. PM segir að strax eftir hrun hafi fjölmiðlarekstur þess fyrirtækis sem nú heitir 365 verið settur inn í félag sem hét Íslensk afþreying (ÍA). Þessu hafi fylgt milljarðaskuldir eftir blaðaútgáfu í Danmörku og Bandaríkjunum, kaup á prentsmiðju í Bretlandi og NFS á Íslandi. ÍA hafi verið andvana fætt félag og stefnt rakleiðis í þrot enda hafi leikurinn verið til þess gerður. Það rétta er: Að ÍA er félag sem áður hét Dagsbrún (fyrst Íslandssími, stofnað árið 2000), en nafninu var breytt í 365 hf eftir að umsvif þess voru skorin niður haustið 2006. Það félag átti mörg fyrirtæki fyrir nóvember 2006, m.a. Vodafone og 365 miðla. Það félag stóð í fjárfestingum erlendis, sem 365 miðlar gerðu aldrei. NFS eru eina dæmið í upptalningu PM sem átti sér stað innan 365 miðla. NFS var sett á fót í nóvember 2005 og lokað í september 2006. Frá nóvember 2006, hélt 365 hf utan um prentsmiðjuhlutinn í Bretlandi (en ekki útgáfustarfsemi í öðrum löndum), sem allur var afskrifaður og var stærsta skýringin á fjárhagslegum ógöngum félagsins. Jafnframt átti það 365 miðla, Senu og Saga film og fyrirtæki í auglýsingaframleiðslu í Bretlandi og á Norðurlöndunum. 365 miðlar ehf voru alltaf sjálfstætt fyrirtæki, sem varð til við samruna Norðurljósa og Fréttar, útgáfufélags Fréttablaðsins. Samruninn var á kennitölu Fréttar frá árinu 2002 og á þeirri kennitölu eru 365 miðlar reknir enn í dag. Nafni 365 hf var breytt í Íslensk afþreying eftir að það hafði selt fyrirtækið 365 miðla ehf frá sér í heilu lagi 3. nóvember 2008 og hélt eftir afþreyingarfyrirtækinu Senu, Saga film og skyldri starfsemi.
  2. PM segir að áður en til gjaldþrots ÍA hafi komið hafi Jón Ásgeir Jóhannesson (JÁJ) fengið að kaupa fjölmiðlana út úr félaginu fyrir lítið en skilja stærstan hluta skuldanna eftir. Landsbankinn hafi viljað tryggja yfirráð JÁJ yfir fjölmiðlum og koma skuldunum yfir á aðra, þ.m.t. skattgreiðendur sem voru orðnir eigendur bankans. Þetta verður að fyrirsögninni: „Ríkisbankinn gaf JÁJ 365.“ Það rétta er: Að 365 miðlar voru seldir fyrir mjög hátt verð, 5,9 milljarða króna, sem var um fimmtánfaldur ebitda hagnaður 365 miðla á þeim tíma. Þrotabú ÍA hafði að vonum ekki áhuga á að rifta þessum kaupum, sem það hefði haft alla möguleika til vegna tímafresta. Ég skora á PM að finna eitthvert félag á Íslandi sem hefur verið selt á hærra verði en 365 miðlar frá ársbyrjun 2008 og til þessa dags, miðað við þær kennitölur sem venjulega eru lagðar til grundvallar. Mér er ekki kunnugt um neitt slíkt dæmi. Við þessa sölu skiptust heildarskuldir 365 hf/ÍA samstæðunnar á það sem var selt og það sem var eftir, í réttu hlutfalli við afrakstur af þessum einingum misserin á undan. Bankaskuldir skiptust þannig að af 5,4 millörðum króna voru 4,4 mja settir með 365 miðlum en 1 mja varð eftir. Fráleitt er að það hafi þá jafngilt ákvörðun um afskrift. Árið 2007 og fram eftir ári 2008 var Sena ein (var eftir í ÍA ásamt með Saga film og erlendri auglýsingaframleiðslu) með meira en helmingin af ebitdu 365 miðla (400 mkr árið 2007). Afstaða bankanna mótaðist af því að innheimta allar sínar kröfur og gefa ekkert eftir. Jafnframt leiddu þessar ráðstafanir til þess að hagur allra kröfuhafa vænkaðist frá því sem annars hefði verið og allar rekstrareiningarnar héldust í rekstri. Kaupendur 365 miðla lögðu fram 1.500 mkr í reiðufé, jafnframt yfirtöku skulda og frá því að félagið var keypt hafa hluthafar lagt því til aðrar 1.000 mkr í nýju hlutafé til að það megi standa undir öllum sínum skuldbindingum. 365 miðlar hafa uppfyllt alla sína samninga við lánastofnanir. Má geta þess að það sem af er þessu ári hefur félagið greitt samtals um einn milljarð króna í afborganir og vexti. 365 miðlar borga innlenda vexti og njóta engra sérstakra tilslakana af hálfu lánastofnana. Eiginfjárhlutfall er um 20%.
  3. Að síðustu skal hér nefnt að PM segir að Arion banki láti það viðgangast að svo gott sem allt auglýsingafé stærslu verslunarkeðju landsins, renni óskipt til 365, þvert á öll viðskiptasjónarmið. Það rétta er: Að það er ekki hægt að byggja neina vitræna umræðu um skiptingu auglýsinga í ljósvakamiðlum á þeim tölum sem Morgunblaðið hefur klifað á að undanförnu og PM leggur til grundvallar í sinni umræðu. Á þetta hefur verið bent í fréttum og í grein sem birtist í Fréttablaðinu 29 júlí, eftir að ritstjóri Mbl hafði neitað að birta hana. Sá miðill kýs fremur að birta aftur og aftur það sem hann veit nú að er vitleysa. Við blasti að ekki væri hægt að leggja að jöfnu sekúndur í knöppum útsendingartíma RÚV, og sekúndur allan sólarhringinn á öllum sjónvarpsrásum 365 miðla. Enda var sú litla eining 10-11 vegna kostunar á enska boltanum, með 2/3 af öllum birtingum Haga samstæðunnar hjá stöðvum 365 miðla í þessum „vísindum.“ Stærsta verslanakeðja Haga auglýsir mun meira á RÚV en í Stöð 2 ef borinn er saman sambærilegur útsendingartími og ótrúlegt að PM viti það ekki. Varðandi prentmiðla eru birtingar Haga fyrirtækja svipaðar og hjá mörgum öðrum viðurkenndustu markaðsfyrirtækjum landsins. Í dálksentimetrum voru þær um 8% af auglýsingum í Fbl á síðasta ári, sem var svipað hlutfall og stærsta samstæðan sem auglýsir mest í Mbl var með þar. Í krónum er hlutfallið lægra og mun lægra í ljósvakanum en prenti. Af öllum tekjum 365 miðla eru auglýsingatekjur af fyrirtækjum innan Haga minna en 3%. Í prenti er hægt að draga úr breytilegum kostnaði þegar auglýsingum fækkar. Þegar svo haft er í huga að ebitda hagnaður 365 miðla hefur ekki verið minni en 10% af veltu, sjá allir hversu fráleit sú þjóðsaga er, að rekstri 365 miðla sé „haldið uppi“ með auglýsingatekjum frá Högum. Þetta sjá a.m.k. allir sem þekkja til á þessum markaði og maður hlýtur að ætlast til að Útvarpsstjóri sé í þeim hópi.

Eins og hér hefur komið fram, beinast ósannar fullyrðingar Útvarpsstjórans að fleirum en 365 miðlum og aðstandendum þeirra, t.d. starfsmönnum banka. Þær hafa ákveðna vigt vegna stöðu PM hjá RÚV, þótt framganga hans sé algerlega ósamboðin stofnuninni og hans starfi.

Sú spurning hlýtur því að vakna hvort Stjórn RÚV og menntamálaráðherra telja slíkar lygaherferðir eðlilegan hluta af starfsemi RÚV. Ef ekki hlýtur Páll Magnússon að verða áminntur um það.

Ari Edwald

forstjóri 365 miðla