Eitt af dótturfélögum 365 miðla fékk nýverið nýtt nafn og heitir nú Torg Vefverslun. „Það er klárlega einn sproti og þeir eru fleiri en þessir,“ segir Ari Edwald, forstjóri 365 miðla. Hann segir nafnið ekki vísa til þess að stefnan sé sett á að 365 miðlar séu að fara út í smásölustarfsemi.

„Það er þá frekar að ýta undir vefverslun. Hún getur náttúrulega tengst því flæði sem er í kringum okkur. Það er gríðarleg vefumferð í kringum okkar miðlun. Við vilj­um skoða og ýta undir að menn sjái þau tækifæri að tengja sig inn í það flæði,“ segir hann.

Eins og fram kom í vikunni kynnti fyrirtækið nýtt svið. Sviðið heldur utan um þróunarverkefni og stýrir því Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri Baugs Group og eiginmaður Ingibjargar Pálmadóttur, sem jafnframt er aðaleigandi 365 miðla.

Spurður hvaða fleiri viðskipta­tækifæri 365 miðlar séu að skoða og þróa segir Ari að ýmsir hluti hafi komið fram opinberlega eins og kaup fyrirtækisins á Miði.is og beiðni um þáttöku í útboði um 4g fjarnetsþjónustu.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.