„Eins og þetta er fram sett þá er síðan lögð undir þessar söluvörur,“ segir Ari Edwald, forstjóri 365 miðla. Auglýsingar fyrirtækisins hafa vakið talsverða athygli í dag, ekki síst vefsíðan 365.is þar sem einvörðungu eru auglýst enski boltinn, net- og fjarskiptaþjónusta. Ekkert er þar minnst á fjölmiðlana undir fyrirtækjahatti 365 miðla á borð við Stöð 2, Fréttablaðið og útvarpsstöðvar á borð við Bylgjuna. Ari segir fjarri að fyrirtækið sé að skilja fjölmiðlahlutann frá tæknihlutanum. Nálgast megi upplýsingarnar um fjölmiðlana á öðrum vefsíðum á borð við 365midlar.is og Stod2.is .

Ari bendir jafnframt á það í samtali við VB.is að 365 miðlar hafi verið að breytast og þróast yfir í að veita fjarskiptaþjónustu ásamt öðru. Enda sé ljóst að sjónvarpið sé að fara yfir á netið. Stefnumótun og nýjungar 365 miðla taki mið af því.

„Þetta útspil núna er eitt af mörgum af þessu tagi,“ segir hann en vísar á bug að þar halli á fjölmiðlana undir hatti fyrirtækisins. Það sé ekki ætlunin heldur einvörðungu verið að kynna enska boltann og net- og fjarskiptaþjónustuna.