Ari Daníelsson sagði sig úr stjórn SaltPay á Íslandi, áður Borgunar, um miðjan apríl. Ari er framkvæmdastjóri og meðal eigenda eignarstýringar- og ráðgjafafyrirtækisins Reviva Capital í Lúxemborg og fyrrverandi framkvæmdastjóri Glitnis í Lúxemborg. Hann var tók sæti í stjórn Borgunar árið 2018 eftir tilefningu frá Íslandsbanka, sem þá var meirihlutaeigandi félagsins, Ari sat áður í stjórn Borgunar á árunum 2006 og 2007.

Íslandsbanki tilnefndi þá einnig Elínu Jónsdóttur, forseta lagadeildar Háskólans á Bifröst, í stjórnina en Elín hætti í stjórn Borgunar eftir kaup SaltPay á félaginu á síðasta ári. Fjögur eru nú í stjórn SaltPay á Íslandi, þar af einn Íslendingur, Reynir Grétarsson, stofnandi Creditinfo. Auk Reynis er Ali Mazanderani, formaður stjórnar og þá eru Daniela Mastrorocco og Hanna Seminario einnig í stjórn félagsins.

Félagið tekið töluverðum breytingum

Gerðar hafa verið miklar breytingar á rekstri félagsins frá því SaltPay festi kaup á síðasta ári. Félagið tilkynnti í síðustu viku um uppsögn fjölda starfsmanna. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var um 55 starfsmönnum sagt upp störfum af um 130 starfsmönnum fyrirtækisins hér á landi. Fyrirtækið sagði að uppsagnirnar næðu helst til starfsmanna sem störfuðu við að þróa og viðhalda eldra greiðslukerfi Borgunar en heimildir Viðskiptablaðsins herma að uppsagnirnar hafi einnig náð til lögfræðiteymis, áhættustýringar og deildarstjóra.

SaltPay gaf út skömmu eftir að gengið var frá kaupunum á Borgun að ráða ætti um 60 háskólastúdenta . Hins vegar var álíka fjölda sagt upp hjá félaginu á síðasta ári, þar á meðal nær öllum lykilstjórnendum félagsins. Síðasta stóra uppsagnarhrina fram að þeirri í síðustu viku var í lok nóvember þegar nærri 30 manns var sagt upp.

Félagið hefur sett sér markmið að vera leiðandi í greiðslumiðlun fyrir lítil- og meðalstór fyrirtæki í Evrópu þar sem fyrirtækjum verði auðveldað að safna upplýsingum um viðskiptavini sína. Móðurfélag SaltPay Co Ltd. Sem skráð er á Cayman eyjum hefur sótt um 80 milljarða króna í hlutafé undanfarið hálft ár og hefur félagið keypt fjölda á síðustu mánuðum, flest í Evrópu.