Skynsamlegt getur verið til að tryggja samkeppni, gerjun í námi og góða nýtingu fjármuna að allir háskólar landsins verði sjálfstæðar sjálfseignastofnanir, að mati Ara Kristins Jónssonar, rektors Háskólans í Reykjavík. Fram kemur í viðtali við hann í Morgunblaðinu í dag að í Danmörku sé rekstri háskóla hagað með þeim hætti.

Ari segir að á sama tíma sé þetta besti grundvöllurinn fyrir aukið samstarf allra háskólanna sjö í landinu þar sem fjármagn þeirra sé háð árangri en við það myndist hvati fyrir skólana til að vinna saman í ríkari mæli.