Ari Guðjónsson hefur verið ráðinn yfirlögfræðingur Icelandair Group þar sem hann kemur í stað Davíðs Þorlákssonar, sem verið hefur yfirlögfræðingur frá 2009.

Í fréttatilkynningu segir að ráðninginn komi til vegna þess að Davíð hafi sagt starfi sínu lausu þar sem hann hefur ráðið sig til starfa annars staðar, en eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag hefur hann hafið störf hjá Samtökum atvinnulífsins.

Ari hóf fyrst störf á lögfræðisviði Icelandair Group samhliða háskólanámi árið 2010, en hefur starfað síðustu árin sem staðgengill yfirlögfræðings. Hann lauk LLM gráðu frá Columbia Law School árið 2017, þar sem hann hlaut Harlan Fiske Stone Scholar viðurkenningu fyrir góðan námsárangur.

Ari varð héraðsdómslögmaður 2015 og lauk meistaraprófi í lögum frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2014. Meistararitgerð hans fjallaði um eignarréttindi í loftförum og alþjóðlega skráningu þeirra.

Hann lauk BA gráðu frá lagadeild HÍ árið 2012 og varð stúdent frá eðlisfræðibraut Menntaskólans í Reykjavík árið 2008. Ari hefur verið annar tveggja fulltrúa Íslands í Norrænni samráðsnefnd um Höfðaborgarsáttmálann frá 2015 og var aðstoðarkennari við lagadeild Háskóla Íslands 2013-2014.