Ari Edwald, framkvæmdastjóri Ísey útflutnings, sem er systurfélag Mjólkursamsölunnar, og Hreggviður Jónsson, stjórnarformaður og stærsti hluthafi Vistor hafa sagt sig frá störfum sínum. Gera þeir það vegna ásakanna Vítalíu Lazareva um að þeir hafi ásamt öðrum farið yfir mörk hennar í sumarbústaðarferð síðla árs 2020.

Stundin greinir frá ofangreindu, en í frétt miðilsins um Ara er haft eftir Elínu Margréti Stefánsdóttur, stjórnarformanni Ísey útflutnings, að Ari hafi sjálfur óskað eftir að fara í leyfi.

Í fréttinni um Hreggvið er vitnað í yfirlýsingu frá honum sjálfum þar sem segir að hann harmi „að hafa ekki stigið út úr aðstæðum sem ung kona hefur skýrt frá og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum.“ Það sé honum afar þungbært að heyra um hennar reynslu. Hann ætli að segja sig úr stjórn Veritas og tengdra fyrirtækja vegna málsins. Hann líti málið alvarlegum augum og en kveðst þó ekki hafa brotið nein lög.

Þá greinir Vísir frá því að einkaþjálfarinn Arnar Grant, sem sagður er hafa átt í ástarsambandi við Vítalíu og verið meðal viðstaddra í sumarbústaðarferðinni, sé farinn í tímabundið leyfi. Þetta komi fram í skriflegu svari Björns Leifssonar, eiganda World Class, við fyrirspurn fréttastofu Vísis.