Tillögur sérfræðihóps ríkisstjórnarinnar um afnám verðtryggingar á nýjum neytendalánum munu frekar auka á vanda íslenskra heimila en að draga úr þeim. Þetta segir Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Landsbankanum og fyrrverandi framkvæmdastjóri ASÍ. Ari ritar grein á vef Landsbankans þar sem hann færir rök fyrir máli sínu.

„Í ljósi þess að óvænt og umtalsverð verðbólguskot hafa einungis tvisvar valdið neikvæðri eiginfjárstöðu hluta skuldara á löngum líftíma verðtryggingar hér á landi, er reitt verulega hátt til höggs þegar settur er saman hópur manna til að útfæra tillögur um afnám verðtryggingar undir merkjum einhverskonar kjarabótar fyrir íslensk heimili. Það kom fáum á óvart að starfshópurinn telji þetta misráðið og treysti sér ekki til að leggja fram afgerandi tillögur. Fyrir þá yfirvegun sem sú niðurstaða felur í sér ber að þakka, en engu að síður þarf að ítreka að þær veigalitlu tillögur sem hópurinn lagði fram, munu fremur auka á vanda íslenskra heimila en draga úr honum,“ segir Ari orðrétt í niðurlagi greinar sinnar.

Ari segir að veigamesta tillaga hópsins sé að óheimilt verði að bjóða neytendum verðtryggð lán með jöfnum greiðslum til lengri tíma en 25 ára. Þetta muni þó hækka greiðslubyrði af lánum og gera fólki erfiðara um vik að eignast húsnæði.

„Hópurinn gerir sér þó grein fyrir því að helstu áhrif afnáms langra verðtryggðra jafngreiðslulána eru annars vegar stórhækkuð greiðslubyrði og hins vegar mun lakara aðgengi að lánsfé. Því sé nauðsynlegt að koma til móts við þá tekjulægri og þá sem eru að kaupa fyrsta sinni með mótvægisaðgerðum, t.d. hærri vaxtabótum, skattaafslætti og úttekt séreignarlífeyrissparnaðar. Í kjölfarið hlýtur sú spurning að vakna hver kostnaður samfélagsins af þessu yrði? Ekki er ólíklegt að sá kostnaður verði hærri en ábatinn við afnám verðtryggingar og því sé betur heima setið en af stað farið. Það er reyndar athyglisvert að þessi starfshópur bendir á notkun séreignalífeyrissparnaðar sem úrræði, en það gerði starfshópur um lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána líka. Notkun séreignalífeyrissparnaðar til annars en uppbyggingar lífeyris virðist því „vinsælasta“ mótvægisaðgerðin þessa dagana og eins og menn haldi að sá sjóður sé ótæmandi,“ segir Ari.