Ferill Ara Kristins Jónssonar er í senn glæsilegur og um margt ólíkur því sem Íslendingar eiga að venjast. Hann lauk doktorsnámi frá Stanford háskóla árið 1997 og hóf í framhaldinu störf hjá NASA, Geimferðastofnun Bandaríkjanna.

Tölvunarfræði og nýsköpun hafa lengi verið Ara Kristni Jónssyni, rektor Háskólans í Reykjavík, hugleikin. Hann lauk doktorsnámi í tölvunarfræði frá Stanford háskóla árið 1997, með áherslu á gervigreind. Í framhaldinu hóf hann störf hjá NASA – geimferðastofnun Bandaríkjanna – og vann hjá rannsóknarmiðstöð stofnunarinnar í Kísildal (e. Silicon Valley) í um áratug. Ari starfaði lengst af við þróun tölvutækni fyrir geimferðir,flugtækni og fleira og kom þannig m.a. að þróun hugbúnaðar fyrir Mars-jeppana Spirit og Oppurtunity. Síðustu árin í Bandaríkjunum sinnti hann svo stjórnendastöðum hjá stofnuninni.

Spurður um ástæðu þess að hann ákvað að venda kvæði sínu í kross og hefja störf hjá HR rifjar hann upp að hann hafi kennt við skólann samhliða störfum sínum í Bandaríkjunum. „Ég kenndi fyrst námskeið við HR árið 2001 og fékk síðan að koma hingað öðru hverju og fylgjast með því hvernig skólinn óx og dafnaði. Í hvert skipti sem ég kom heim var skólinn búinn að stækka og mér fannst alltaf mjög spennandi hlutir að gerast. Þegar það var síðan haft samband við mig og mér boðin staða forseta tölvunarfræðideildar, þá ákvað ég að slá til og flytja aftur heim. Það var reyndar ekkert sjálfgefið að ég myndi gera það því konan mín er bandarísk og strákarnir okkar báðir með tvöfaldan ríkisborgararétt. En ég var búinn að vera í 10 ár hjá NASA og það var kominn tími til að breyta til. Ég var deildarforseti í rúm tvö ár eða allt þar til Svafa Grönfeldt, þáverandi rektor, ákvað að stíga til hliðar og ég var beðinn að fylla skarðið sem ég gerði með mikilli ánægju og hef gert núna í sex og hálft ár.“

Breytingar voru nauðsynlegar

Fylgdu þér einhverjar sérstakar nýjar áherslur og breytingar þegar þú tókst við sem rektor?

„Það voru heilmiklar breytingar gerðar eftir að ég tók við, án þess þó að ég hafi komið hérna inn fyrsta daginn og ákveðið að umbylta öllu. Ég tek við stöðunni árið 2010, sem var mjög krefjandi ár fyrir HR. Við vorum nýflutt inn í þetta nýja og dýrara húsnæði á sama tíma og það var mikill niðurskurður í framlögum ríkisins til háskóla og þá sérstaklegaHR. Það var erfitt ástand ástand í efnahagslífinu og því minni stuðningur frá fyrirtækjum og svo fækkaði nemendum þetta árið í ofanálag. Vegna alls þessa var nauðsynlegt að gera breytingar. Við fórum í það að endurskipuleggja námsframboðið hjá okkur og ákveða hverjaryrðu áherslur okkar, þ.e. tækni, viðskipti og lög. Í framhaldi af því höfum við haldið áfram að þróa og efla HR. Í góðu samstarfið við fólkið sem ég hef unnið með hérna í gegnum árin þá er nú svo komið að við höfum gert miklar breytingar enda á háskólastarf að vera í stöðugri þróun. Þetta hefur verið hægfara þróun þar sem tekist hefur verið á við eina áskorun í einu og unnið að því að finna bestu leiðirnar til að stýra skólanum þannig að aðstaða fyrir nemendur sé sem allra best sem og aðstaða og kjör fyrir starfsmenn.“

Viðtalið við Ara má sjá í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið í pdf-útgáfu undir Tölublöð.