Rúmlega 369 milljónir dollara, eða sem nemur rúmlega 45 milljörðum króna, eru á gjalddaga hjá Landsvirkjun á þessu ári. Sterk lausafjárstaða, sem nemur meira 570 milljónum dollara, tekur ekki síst mið af þungum gjalddögum lána á þessu ári og því næsta. Á næsta ári eru tæplega 250 milljónir dollara, um 30 milljarðar króna, á gjalddaga. Sé horft til ársins 2034, miðað við núverandi skuldastöðu, þá er ekkert einstakt ár þar sem gjalddagar eru þyngri en á árinu 2011. Þetta kemur fram í ársskýrslu Landsvirkjunar.

Lánasafn Landsvirkjunar er að mestu í dollurum og evrum. Efnahagsreikningurinn er í dollurum þar sem tekjur fyrirtækisins eru að mestu í þeirri mynt. Þar vegur sala raforku til stóriðju langsamlega þyngst.

Eiginfjárhlutfall Landsvirkjunar jókst í fyrra, úr 32% í 34%. Sjóðsstreymi fyrirtækisins var afar sterkt í fyrra en handbært fé frá rekstri var um 230 milljónir dollara og hefur aldrei verið meira. Á árinu 2010 voru afborganir lána umfram lántökur.