*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 26. mars 2015 17:14

„Árið 2015 verði ár aðgerða og lausna í þessu máli"

Fjármálaráðherra segir að gangi spár eftir upplifi Íslendingar „eitt lengsta samfellda hagvaxtarskeiðið í seinni tíma hagsögu Íslands."

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ávarpaði fundargesti á ársfundi Seðlabanka Íslands. Bjarni talaði þar meðal annars um að spár gerðu ráð fyrir því að Íslendingar væru nú að upplifa eitt lengsta samfellda hagvaxtaskeið síðari hluta Íslandssögunnar.

Þá vék fjármálaráðherra orðum að afnámi gjaldeyrishafta á fundinum, en stjórnvöld hafa undanfarna mánuði undirbúið afnám hafta. "Megininntak þeirrar vinnu sem staðið hefur yfir er að hanna áætlun sem gerir okkur kleift að losa um höft án þess að stefna efnahagsstöðugleika Íslands í hættu. Gerð hefur verið úttekt á mismunandi aðgerðum og áhrifum þeirra á stöðugleika í efnahagsmálum. Lausnirnar taka mið af þeim niðurstöðum," sagði fjármálaráðherra í ræðu sinni.

Aðstæður gætu varla verið betri

„Meðan á þessari vinnu hefur staðið hefur efnahagsbatinn verið jafn og stöðugur. Er svo komið að aðstæður fyrir afnám fjármagnshafta geta vart verið betri en þær sem nú ríkja á Íslandi. Framkvæmdahópurinn leggur um þessar mundir lokahönd á tillögur til aðgerða sem innan tíðar verða lagðar fyrir stýrinefnd um losun fjármagnshafta og í framhaldinu ríkisstjórn. Þannig standa vonir mínar til þess að nú á fyrri hluta þessa árs verði stórar ákvarðanir teknar sem marka leiðina fram á við. Árið 2015 verði ár aðgerða og lausna í þessu máli," sagði fjármálaráðherra.

Bjarni vék einnig að framkvæmd opinberra fjármála, sem hann sagði að væri almennt of laus í reipunum. Því teldi hann mikið framfaraskref þegar búið væri að innleiða ný lög um opinber fjármál sem settu stjórnvöldum skýrari fjármálareglur og gerðu strangari kröfur til áætlanagerðar.