Gistinóttum Íslendinga á hótelum hér á landi fjölgaði mun meira á síðasta ári en erlendra ferðamanna, sem er í fyrsta sinn síðan árið 2010 sem ferðamönnunum fjölgaði ekki meira að því er segir í nýrri Hagsjá Landsbankans .

Á því ári fækkaði reyndar gistinóttum erlendra ferðamanna um 1,9% en um 1,4% fækkun varð á gistinóttum Íslendinga. Á síðasta ári nam fjöldi gistinátta á hótelum hér á landi tæplega 4,5 milljónum, og jókst fjöldinn um 4,6% milli ára.

Fjöldi gistinátta útlendinga nam rúmlega 4 milljónum og jókst hann um 3,8% milli ára. Gistinætur Íslendinga námu 456 þúsund og fjölgaði um 11,8% milli ára, og er vægi Íslendinga í heildargistifjöldanum nú yfir tíunda hluta á ný, eftir lækkun síðustu ára.

Hlutfall Íslendinga í heildargistináttafjöldanum var í kringum fjórðungur á árunum fyrir síðustu aldamót en hefur almennt séð leitað niður á við síðan.

Þróunin mismunandi

Eins og gefur að skilja var þróun gistinátta, bæði innlendra og erlendra gesta, mjög mismunandi eftir landsvæðum á síðasta ári. Mest var aukningin á Vesturlandi og Vestfjörðum, eða 29,2%. Næstmesta aukningin var á Suðurlandi, 15,5%, en þar fjölgaði gistináttunum um 120 þúsund sem er 61% af heildarfjölgun gistinátta yfir landið í heild.

Mesti samdrátturinn var á Austurlandi, 5,4%, en einnig mældist lítilsháttar samdráttur á höfuðborgarsvæðinu, -0,2%. Þetta var fyrsta árið síðan 2010 sem samdráttur mældist á þessum tveimur svæðum.

Kýpverjum fjölgaði mest

Ef fjölgun gistinátta er skoðuð eftir þjóðernum sést að af 47 þjóðum sem skoðaðar eru fjölgaði þeim frá 32 þeirra, en fækkaði frá 15. Mest fjölgun var frá Kýpur, eða 67% á milli ára, næst mest frá Lúxemborg, eða um tæp 50%.

Þessar og aðrar þjóðir sem fjölgaði mikið vega þó mjög lítið í heildarfjöldanum, ef frá eru taldir Bandaríkjamenn, en þeim fjölgaði um 20,5% og stóðu þeir undir 1,1 milljón gistinátta á síðasta ári hér á landi, sem er 26,3% allra gistináttanna.

Gistinóttum Kínverja fjölgaði svo um 37,2% milli ára og námu rúmlega 202 þúsund, sem er 4,7% af heildarfjöldanum. Á sama tíma fjölgaði þó komum þeirra hingað einungis um 4,1% svo fjöldi gistinátta á hvern hefur aukist töluvert.

Herbergjanýtingin minnkaði þar sem hún er best

Meðalherbergjanýting minnkaði yfir landið í heild, eða úr 72,2% í 69,2%, en hún batnaði alls staðar á landinu nema á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi, þar sem hún er best og næstbest. Fór hún annars vegar úr 84,4% niður í 79,4% og hins vegar úr 65,7% niður í 64%.

Nýtingin batnaði hins vegar mest á Vesturlandi og Vestfjörðum, sem tekin eru saman, eða úr 48,9% í 52%, en næstmesti batinn var á Austfjörðum, úr 37,7% í 40%.

Þegar Vestfirðir eru flokkaðir frá Vesturlandi sést, eins og gefur að skilja að árstíðasveiflan á Vestfjörðum er mun meiri en á Vesturlandi, þannig eru að meðaltali 8 sinnum fleiri gistinætur á Vestfjörðum yfir sumarmánuðina en aðra mánuði, en þrisvar sinnum fleiri á sama tíma á Vesturlandi miðað við aðra mánuði.