Hlutabréfamarkaðir heimsins hófu nýja árið þungir á brún yfir hugsanlegri niðursveiflu í efnahagsmálum á alþjóðavísu, eftir að hafa kvatt hið gamla sem það versta í áratug , eða allt frá fjármálakrísunni sem skók hagkerfi heimsins árið 2008.

Markaðir vestra lækkuðu við opnun, og fylgdu þar með fordæmi evrópskra og asískra markaða, í kjölfar nýrra hagtalna sem sýna að kínversk iðnframleiðsla dróst saman í fyrsta sinn í hátt í 2 ár.

Samsett vísitala Nasdaq (e. Nasdaq Composite) féll um 1,7%, en þar höfðu lækkanir tæknifyrirtækja mest áhrif, og S&P 500 vísitalan féll um 1,5%.

Í frétt Financial Times er vísað í hagfræðing hjá hollenska fjármálafyrirtækinu ING, sem telur tölurnar merki þess að ekki aðeins hafi tollastríð Bandaríkjanna og Kína skaðað útflutningsgeirann hjá hinu síðarnefnda, heldur einnig afleidda starfsemi, og þar af leiðandi innlenda eftirspurn. Verði ekkert að gert geti svo farið fyrr en síðar að atvinnuleysi taki að aukast, sem muni hrinda af stað efnahagslegum vítahring.

Auk hættumerkja í framleiðslugeirum Asíu og að einhverju leyti Evrópu, eru fjárfestar sagðir hafa áhyggjur af stigmögnun áðurnefnds tollastríðs, áframhaldandi lamasessi bandarískra alríkisstofnana – sem liggja að verulegu leyti niðri vegna skorts á fjárveitingum, sökum þess að fjárlög hafa ekki verið samþykkt – hugsanlegrar samningslausrar útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, og herðingar peningamálastefnu, sem loks er hafin eftir áratug af slaka.