Þrátt fyrir töluverðar lækkanir á hlutabréfamörkuðum víðsvegar um heim var kauphöllin hér heima heldur róleg í dag, og úrvalsvísitalan hækkaði lítillega. Heildarviðskipti á aðalmarkaði námu 886 milljónum króna og úrvalsvísitalan, OMXI8, hækkaði um 0,20%.

Ekkert félag hækkaði um yfir 1%, og aðeins eitt lækkaði svo mikið. Marel leiddi hækkanir dagsins með 0,95% hækkun í 236 milljón króna viðskiptum, sem einnig er mesta velta dagsins, og átti því væntanlega verulegan þátt í hækkun vísitölunnar, enda hefur félagið langtum mest vægi í henni.

Mest lækkuðu bréf Icelandair, um 1,25%, í aðeins 30 milljón króna viðskiptum, en þar á eftir koma bréf Origo með 0,99% lækkun í 41 milljónar króna viðskiptum, og Heimavellir og Eimskip deila þriðja sætinu með 0,88% lækkun, í 16 og 23 milljón króna viðskiptum.

Að Marel undanskildu voru mest viðskipti með bréf Arion banka, sem lækkaði um 0,28% í 151 milljón króna viðskiptum, og þar á eftir bréf Festar, sem lækkuðu um 0,65% í 92 milljóna viðskiptum.