*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 5. janúar 2017 17:00

Árið byrjar vel í kauphöllinni

Íslenska úrvalsvísitalan hefur hækkað um 1,24% frá áramótum. Árið byrjar því ágætlega í Kauphöll Íslands.

Ritstjórn
Hendur í kauphöllinni
Aðrir ljósmyndarar

Íslenska úrvalsvísitalan hefur hækkað um 1,24% frá áramótum og stendur nú í 1.731,84 stigum. Þó lækkaði hún um 0,26% í viðskiptum dagsins.

Velta með hlutabréf á aðalmarkaði kauphallarinnar nam alls 3,7 milljörðum króna í dag, en velta með skuldabréf nam aðeins 2,1 milljarði króna.

Nýherji hækkaði mest

Í dag hækkaði Nýherji mest og það um 1,9% í rúmlega 105 milljón króna veltu. Gengi bréfanna stendur nú í 21,2 krónum á hlut.

VÍS hækkaði þá um 1% og það í tæplega 41 milljóna króna veltu. Verð á hlut í VÍS er nú í 9,12 krónum.

Marel hefur verið í hækkunarfasa á þessu nýja ári, en í dag hækkuðu bréfin um rétt tæpa prósentu, eða 0,98 í þó 671 milljón króna veltu.

Fjarskipti, Reginn, Síminn, N1 og Reitir eru meðal félaga sem hækkuðu í dag, en þó um minna en prósentu. Velta með bréf í Reginn nam 450 milljónum og Reitum tæplega 404 milljónum.

HB Grandi, Sjóvá og Össur hreyfðust ekkert í viðskiptum dagsins.

Hagar og Icelandair lækka

Í dag tilkynntu Hagar kaup á 4.706 fermetra eignarhluta í Skeifunni 11 sem skemmdist að stórum hluta í brunanum þar í júlí 2014. Hagar munu greiða um 1.714 milljónir króna fyrir húsnæðið og mætti segja að sumum hluthöfum hafi jafnvel fundist það of mikið.

Fyrirtækið lækkaði a.m.k um 2% í dag og nam velta með bréfin rétt tæplega 323 milljónum króna. Hver hlutur kostar nú 52,9 krónur. Icelandair virðist einnig halda áfram að lækka í verði. Fyrirtækið lækkaði um 1,5% í dag og það í 924,5 milljón króna viðskiptum.

Önnur félög sem lækkuðu lítillega  í dag voru Eik, TM, Eimskip og Skeljungur. Hreyfingarnar voru allar undir einni próstentu.

Stikkorð: Gamma Kauphöll Nasdaq