Gengi hlutabréfa í Hong Kong hefur lækkað verulega það sem af er ári. Hang Seng-hlutabréfavísitalan hefur fallið um 23 prósent og hefur hlutabréfaverð í mörgum tilvikum ekki verið lægra síðan í kreppunni í Asíu fyrir rúmum áratug. Um helmingur verðfallsins féll til í nýliðnum mánuði.

Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal segir fjárfesta telja hlutabréfaverð orðið hagstætt nú um stundir.

Verðfallið er ekki jafn mikið á bandarískum hlutabréfamarkaði. Til samanburðar hefur S&P-hlutabréfavísitalan fallið um átta prósent frá áramótum, þar af um þrjú prósent í september.

Úrvalsvísitalan hefur á sama tíma fallið um rétt rúm sex prósent í Kauphöllinni, þar af nemur fallið 5,9 prósentum síðan í byrjun september.