„Ég fagna því að vinna við þetta mikla umbótamál er farin af stað hjá ráðuneytinu,‟ segir Jónas Þór Guðmundsson, formaður Lögmannafélags Íslands. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra skipaði í gær nefnd sem mun undirbúa millidómstig. Formaður nefndarinnar er Kristín Edwald hæstaréttarlögmaður.

Jónas Þór segir að áríðandi sé að gera breytingar á íslensku dómskerfi, ekki síst til þess að styrkja fordæmisgefandi hlutverk Hæstaréttar og efla endurskoðunarrétt málsaðila á æðra dómstigi.

„Lögmannafélag Íslands hefur barist fyrir upptöku millidómstigs til þess að málsmeðferð fyrir íslenskum dómstólum geti sem best samræmst kröfum stjórnarskrár og alþjóðlegra mannréttindasáttmála,‟ segir Jónas.

Jónas bendir á að skýrslur um millidómstig frá nefndum sem starfað hafi á síðustu árum og fræðiskrif liggi fyrir og geti nýst vel og sparað mikinn tíma. „Vinna nefndarinnar ætti því ekki að þurfa að taka langan tíma,‟ segir hann að lokum.