Rúnar Kristinsson er þjálfari meistaraflokks KR og fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaður í knattspyrnu. Rúnar hefur verið stuðningsmaður KR frá barnsaldri en hóf þó knattspyrnuiðkun með yngri flokkum Leiknis í Breiðholti þar sem hann lék þar til hann skipti yfir í KR þrettán ára gamall. Strax á táningsaldri var Rúnar tekinn inn í meistaraflokk KR, þar sem hann lék við góðan orðstír áður en hann hélt svo til Svíþjóðar í atvinnumennsku. Á atvinnumannaferlinum lék Rúnar einnig í Noregi og Belgíu. Árið 2007 sneri Rúnar svo heim á ný eftir tólf ára atvinnumannaferil og kláraði tímabilið með KR áður en hann lagði skóna á hilluna. Rúnar kveðst stoltur og ánægður með leikmannaferil sinn.

„Ég á langan leikmannaferil að baki og það voru margar góðar stundir sem maður upplifði sem leikmaður. Ein stærsta stundin á ferlinum var þegar ég komst inn í meistaraflokk KR á átjánda aldursári. Ég spilaði svo í nokkur ár með KR og fór út í atvinnumennsku 25 ára, sem er seinna en gengur og gerist hjá þeim íslensku leikmönnum sem fara út í atvinnumennsku í dag. Þrátt fyrir það náði ég tólf árum úti í atvinnumennskunni og lék þar með Örgryte í Svíþjóð, Lilleström í Noregi og Lokeren í Belgíu. Ég myndi segja að árin í Belgíu standi upp úr, okkur fjölskyldunni leið mjög vel þar og ég átti í frábæru sambandi við klúbbinn og stuðningsmenn hans.

Ég lauk svo ferlinum árið 2007 með KR, tæpum tuttugu árum eftir að hafa spilað minn fyrsta leik á KR vellinum. Ég var heppinn að því leyti að ég hélst alltaf tiltölulega heill og slapp að mestu við alvarleg meiðsli. Ég lagði alltaf áherslu á að hugsa vel um mig og það hjálpaði mér klárlega við að eiga þetta langan feril."

Rúnar á einnig langan feril að baki með íslenska A-landsliðinu, en hann er leikjahæsti leikmaður í sögu landsliðsins með 104 landsleiki að baki.

„Það er ótrúlegt að það met standi ennþá, því að á árum áður spiluðum við ekki eins marga landsleiki á ári hverju eins og tíðkast í dag. Ég var átján ára þegar ég kom fyrst inn í landsliðshópinn og spilaði með liðinu þar til á 35. aldursári. Ég hefði mögulega getað spilað lengur með landsliðinu en mér þótti þetta rétti tímapunkturinn til þess að stíga til hliðar og hleypa öðrum að. Með þessu gat ég einnig lengt leikmannaferilinn minn og t.d. fengið lengra sumarfrí til að hlaða batteríin fyrir komandi tímabil. Ég er mjög stoltur af því að hafa náð að spila alla þessa leiki fyrir hönd þjóðarinnar."

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í dag. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér.