Arinbjörn Ólafsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs Landsbankans og tekur þegar til starfa að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá bankanum.

Arinbjörn lauk M.Sc. prófi í iðnarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2000 og Ph.D gráðu í sömu grein frá Háskólanum í Wisconsin í Bandaríkjunum árið 2006. Hann hóf störf á verðbréfasviði Landsbankans árið 2006. Árin 2009 til 2015 vann hann að fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja og stýrði endurútreikningi gengistryggðra lána. Arinbjörn hefur starfað sem forstöðumaður upplýsingatæknideildar hjá Landsbankanum frá árinu 2015.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans segir við tilefnið: „Arinbjörn hefur yfirgripsmikla þekkingu á bankarekstri og rekstri tölvu- og upplýsingakerfa og langa reynslu af því að stýra stórum og flóknum verkefnum. Landsbankinn leggur mikla áherslu á stafræna tækni og reynsla Arinbjarnar mun nýtast bankanum einkar vel við frekari framþróun á því sviði.“