Hekla Firelogs er nafnið á arinkubbum sem framleiddir verða fyrir innanlandsmarkað á næsta ári. Kubbarnir eru framleiddir úr tólg og hrossataði. Að sögn Óla Hilmars Briem Jónssonar datt hann niður á hugmyndina fyrir slysni eða vegna brennandi áhuga hans á íslenskum fræðum og þjóðháttum. Tólg og tað hefur í gegnum aldirnar verið mikið notað á Íslandi. Hann hefur verið að kynna hugmyndina fyrir ýmsum.

„Á einum kynningarfundinum kveikti ég í kubbi á steinplötu á fundarborðinu,“ segir Óli Hilmar. „Kubburinn var á stærð við eldspýtustokk og logaði allan fundinn, sem stóð í klukkutíma. Þarna var fullt af reykskynjurum en enginn þeirra fór af stað enda er bruninn af þessu mjög hreinn.“ Óli Hilmar segir að tólgin þurfi að vera mjög hrein og eini aðilinn sem framleiði slíka tólg sé Garðar Jónsson á Stóruvöllum í Bárðardal.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .