Kauphöllin hefur tekið saman hlutdeild kauphallaraðila í viðskiptum á Aðalmarkaði Kauphallarinnar á síðasta ári.

Á hlutabréfamarkaði var Arion banki með mestu hlutdeildina, 24,3%, Landsbankinn var næstur í röðinni með 20,3% og þar næstir voru Fossar markaðir með 14,7% hlutdeild.

Ef litið er eingöngu til hlutabréfaviðskipta sem eiga sér stað við pörun tilboða í tilboðabókum er Arion banki einnig með mestu hlutdeildina, 27,8%, Landsbankinn með þá næst mestu, 22,6% og Íslandsbanki í þriðja sæti með 18,7% hlutdeild.

Á skuldabréfamarkaði var Landsbankinn með mestu hlutdeildina, 17,9%, Íslandsbanki fylgdi í kjölfarið með 17,1% og Arion banki var með þriðju hæstu hlutdeildina, 16,5%.

Kvika banki er með mestu hlutdeildina í pöruðum skuldabréfaviðskiptum, 25,8%, þá kemur Íslandsbanki með 22,6% og Arion banki þar næst með 22,1% hlutdeild.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir hlutdeild í verðbréfaviðskiptum.