Arion banki hefur auglýst eignarhluti sína í AFL-sparisjóði og Sparisjóði Ólafsfjarðar til sölu en í fréttatilkynningu frá bankanum kemur fram að hann eigi 94,95% stofnfjár í AFL og 99,99% í SÓ. Fyrirtækjaráðgjöf bankans sér um söluna en í tilkynningunni segir að gert sé ráð fyrir að hlutirnir verði seldir í einu lag.

Söluferlið er aðeins opið fjárfestum sem teljast hæfir samkvæmt skilgreiningu laga um verðbréfaviðskipti, hafa aðgang að 800 milljónum króna í auðseljanlegum eignum og teljast hæfir til þess að reka fjármálafyrirtæki.

Báðir eru sparisjóðirnir á Norðurlandi og gamalgrónir sjóðir en AFL varð til við samruna sparisjóðanna í Skagafirði og Siglufirði og má rekja sögu hans aftur til ársisn 1873. Sparisjóður Ólafsfjarðar var stofnaður árið 1914.