„Það er virkilega ánægjulegt að fá viðurkenningu þessa virta fagtímarits,“ segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka í tilkynningu þar sem greint er frá því að tímaritið The Banker, sem gefið er út af breska dagblaðinu The Financial Times, hafi valið Arion banka sem banka ársins á Íslandi árið 2013. Þetta er í fysrta skiptið frá árinu 2007 sem tímaritið veitir íslenskum banka þessa viðurkenningu og er það til marks um þann árangur sem náðst hefur á undanförnum árum við uppbyggingu nýs fjármálakerfis hér á landi.

Í tilkynningu frá Arion banka er vísað til þess að í rökstuðningi The Banker segi að fulltrúar tímaritsins litu ekki síst til árangurs bankans við að auka fjölbreytni fjármögnunar. Arion banki hafi sótt sér nýja fjármögnun bæði hér á landi sem og erlendis og minnkað þar með vægi innlána í fjármögnun bankans. Bent er á að fyrr á árinu gaf Arion banki út skuldabréf í norskum krónum og varð þar með fyrsti íslenski bankinn frá árinu 2007 til að gefa út skuldabréf í erlendri mynt. Að auki var bankinn fyrstur íslenskra fjármálafyrirtækja til að gefa út óverðtryggð sértryggð skuldabréf á innlendum markaði.

The Banker horfði einnig til þess mikla árangurs sem náðst hefur við að lækka hlutfall lána í alvarlegum vanskilum í lánasafni bankans. Íslenskir bankar hafa glímt við hátt hlutfall vanskila en hafa náð miklum árangri á undanförnum árum ekki síst í kjölfar þeirrar umfangsmiklu vinnu sem farið hefur fram við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja og heimila.

Þessu til viðbótar var við val á Arion banka sem banka ársins á Íslandi horft til vöruþróunar bankans, ekki síst þess frumkvæðis og þeirra nýjunga sem Arion banki hefur kynnt á íslenskum íbúðalánamarkaði á undanförnum árum eins og óverðtryggð íbúðalán með fasta vexti til fimm ára. Einnig var horft til þeirra fjölbreyttu þjónustuleiða sem Arion banki býður viðskiptavinum sínum upp á og þá ekki síst Arion banka appsins fyrir snjallsíma sem hefur verið afar vel tekið af viðskiptavinum bankans.