Arion banki hyggst draga úr kostnaði um 15 prósent. Þetta kom fram á starfsmannafundi bankans sem haldinn var í byrjun mánaðarins.

Á fundinum var ekki greint nánar frá því með hvaða hætti hagræðingu yrði náð, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Þá er talið líklegt að ráðist verði í sparnaðaraðgerðir á næsta ári.

Stærð bankanna verið gagnrýnd

Margir hafa bent á stærð íslenska bankakerfisins eftir hrun og sagt hana í ósamræmi við umsvif bankanna. Til að mynda hefur Bankasýsla ríkisins sagt að skoða þurfi stærð bankanna.

„Þá er ljóst að skoða þarf stærð fjármálakerfisins og leggja mat á hvernig hagræða má í rekstri fjármálafyrirtækja og endurskipuleggja ef það má verða til þess að byggja upp heilbrigt og öflugt fjármálakerfi sem þjónar innanlandsmarkaði,“ segir í skýrslu sýslunnar um starfsemi hennar á árinu 2010.

Einnig hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bent á að draga þurfi úr umfangi bankakerfisins hér á landi í sínum skýrslum.